145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég tel alveg að það séu faglegir burðir í utanríkisráðuneytinu til þess að vinna að þessum málaflokki. Það er mikilvægt að leggja áherslu á það. Það væri alveg hægt að finna praktískar lausnir á því flækjustigi sem skapast við að hafa ekki sjálfstæða stofnun lengur.

En það er ekki skynsamlegt að setja sérstakt ákvæði inn um að það eigi að vera einhvers konar eftirlit með ráðstöfun þessara fjármuna. Á sama tíma eru almenn lög í landinu um að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með fjárreiðum ríkisstofnana og þar með ráðuneyta. Þetta er þá sérákvæði sem gengur lengra og þýðir væntanlega að gagnálykta megi að Ríkisendurskoðun eigi ekki að hafa eftirlit með henni.

Það er auðvitað sú hætta fyrir hendi sem mér finnst hv. þingmaður vera að ýja að, að fjármunum verði þá grautað saman og það fé sem við ætlum að fari til þróunarsamvinnu fari þá í verkefni sem eru eðlislíkari öðrum rekstri í ráðuneytinu. Það þarf auðvitað að gæta þess að það gerist ekki. Það þarf líka að gæta þess að þróunarsamvinnuféð fari raunverulega til þeirra verkefna sem sagt er að það fari til. Það eru víðþekkt dæmi í þessum málaflokki um að peningar skili sér ekki. Það getur verið alls konar spilling í tengslum við útdeilingu þeirra. Stundum sitja menn uppi með að verkefnin sem áttu að verða til hafa aldrei orðið til, eða a.m.k. ekki með þeim hætti sem átti að vera, eða að fjármunir sem hafa átt að renna til þeirra hafi ekki gert það.

Til þess að verjast þeirri hættu þarf öflugt eftirlitskerfi. Ég held að í sögu vestrænnar þróunarsamvinnu á síðustu árum hafi aldrei verið sett fram jafn losaralegt og grautarkennt ákvæði um eftirlit með jafn gríðarlega miklum fjármunum og hér er um að ræða. Það er alveg ástæðulaust (Forseti hringir.) að hafa ákvæðið svona losaralegt. Það hlýtur að vera hægt að ákveða hverjir þessir óháðu aðilar eiga að vera sem (Forseti hringir.) eiga að hafa þetta eftirlit, og útfæra það í lagatexta.