145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög hugsi yfir því hvernig hægt verður að halda utan um það markmið að auka framlag okkar Íslendinga til þróunarsamvinnu. Undanfarið hefur sú vinna verið hjá sérstofnun, en núna mun hún fara fram í ráðuneytinu. Gæti ekki tilhneigingin orðið sú að fleiri verkefni á jaðrinum sem ekki hafa áður fallið undir þróunarsamvinnu í fátækari löndum, verði ýtt undir þann hatt? Það er nokkuð sem ég óttast að geti gerst, þ.e. að flokkunin verði óskýr í þeim efnum. Hvernig verður þá hægt að halda utan um þessi mál? Það er mjög ógegnsætt hvernig menn ætla að hafa eftirlit með því, eins og hv. þingmaður kom inn á. Hæstv. utanríkisráðherra skuldar okkur svar við því þegar hann mun sýna okkur þann mikla heiður að ganga til þings og sinna embættisskyldum sínum og vera viðstaddur umræðuna. Þá reikna ég með að hann taki þátt í umræðunni og svari hinum ýmsu spurningum sem komið hafa fram og ég veit að hann hefur kynnt sér.

Mig langar aðeins að ræða umsögn frá forstöðumanni Þróunarsamvinnustofnunar á síðasta ári. Þar var óskað eftir viðbrögðum við skýrslu Þóris Guðmundssonar um að ekki yrði gengið til þessa verks fyrr en búið væri að leita álits Ríkisendurskoðunar og tillögum um skipulagsbreytingar sem ráðherra kynni að vilja íhuga nánar til að fá faglegt álit á því hve vel slíkar tillögur féllu að nútímahugmyndum um góða stjórnsýslu á Íslandi. Einnig kemur þar fram að íhuga mætti að leita álits sérfræðinga í stjórnsýslu innan háskólasamfélagsins.

Telur hv. þingmaður að farið hafi verið eftir þeirri ósk og þeim tilmælum í umsögn forstöðumanns Þróunarsamvinnustofnunar og telur hann rétt að hlustað sé á faglega tillögu frá honum?