145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram. Við ræðum hér málaflokk sem er afar mikilvægur og ekki síst á þeim tímum sem blasa við okkur hér á Íslandi og víðar á Vesturlöndum. Það er afar mikilvægt að freista þess að ná þverpólitískri nálgun í þessum málaflokki. Þetta er ekki málaflokkur sem sæmir að setja fram með ofbeldi; einfaldlega vegna eðlis og innihalds málsins þá á að gera það þannig að það sé gert með breiðri nálgun og með sáttasjónarmið að leiðarljósi.

Ég vil nefna dæmi um slíka vinnu. Það er frumvarp til nýrra útlendingalaga sem unnið var að frumkvæði hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún setti það af stað sem innanríkisráðherra og þingmannanefndin hefur nýlega afhent ráðherra fullbúið frumvarp. Það eru vinnubrögð sem er sómi að og eiga heima í svo viðkvæmum málaflokkum sem hér eru. Ég tek undir það sjónarmið að við nýtum matarhléið hér á eftir til að setjast yfir möguleika á því að ná slíkri nálgun í málinu.