145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur oft sýnt það í verki að hann er tilbúinn í málefnalegar umræður. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hlusta vel eftir því sem hér hefur verið sagt af ýmsum hv. þingmönnum, þar á meðal þingflokksformanni Vinstri grænna, um að fullt tilefni sé til að reyna að taka þetta mál til endurskoðunar. Annað eins hefur nú verið gert í þinginu og hafa náttúruverndarlögin verið nefnd sem dæmi. Ég er nokkuð viss um að hv. þingmenn allra flokka eru nú glaðir yfir því að það gekk ekki eftir sem ætlunin var í þeim málaflokki, þ.e. að kalla aftur lögin um náttúruvernd, heldur lögðu menn sig fram um að reyna að ná sátt um málið.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að hlusta eftir því sem hér er sagt því að þetta er málaflokkur sem á það skilið að við gefum okkur tíma til að ná sátt. Hún næst að sjálfsögðu ekki með því að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höldum hér einræður að mestu leyti um málið. Ég held að slík sátt náist best með því að fólk ræði saman. Ég hvet hæstv. ráðherra til að íhuga það.