145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um þá hugmynd að freista þess að taka málið á næsta stað og setja niður deilur um það, ekki síst vegna þess hversu dýrmætur málaflokkurinn og sú efnislega og þverpólitíska sátt sem gæti verið í sjónmáli.

Hér hefur verið talað um náttúruverndarlög og það hvernig formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, fór með það mál og tókst að leiða það í uppbyggilegan farveg.

Ég vil nefna annað dæmi og það kemur kannski einhverjum á óvart að ég nefni hv. þm. Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar, sem sérstakan friðarins mann, en það var þó þannig og við skulum halda því til haga að þegar við vorum að ræða kerfisáætlun var stoppað í miðri mælendaskrá til að halda sérstakan fund um að laga málið. Það var gert og umræðunni síðan haldið áfram, þannig að við eigum góð dæmi um að menn hafa náð að setja niður deilur í stórum málum.