145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst og fremst að svara fyrir mig í þessu máli. Þetta er ekki mál sem þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagst yfir eða mótað sér sameiginlega skoðun á. Ég þekki þessi mál náttúrlega eins og hv. þingmaður og við vorum öll sammála um það, þingmenn í kjördæminu, að til mikils væri að vinna að treysta byggð í Grímsey vegna þess að það eru mjög sérstakar aðstæður þar og mikilvægt að halda byggð á þeim stað.

Ég verð þó að segja að ég er ekki búin að sjá ítarlega útfærslu á öllum tillögunum, en þær eru í anda þess sem talað var um. Það er auðvitað flækjustig þarna varðandi lánin og afstöðu bankans og þar fram eftir götunum. Það er jákvætt að auka eigi samgöngur við eyna. Ég tel að það geti stutt við ferðaþjónustu á staðnum. Ég vonast til að aðgerðirnar tryggi byggð til lengri tíma því að mér hefur stundum fundist við vera með byggðastefnu sem er bara plástur á sárin en ekki heilsteypt og oft er ekki verið að hugsa nema kannski fimm ár fram í tímann.

Það er alltaf erfitt að fara í sértækar aðgerðir. Við þekkjum það mjög vel, ég og hv. þingmaður, sem gerðist á Djúpavogi. Mér hefur ekki fundist að við sem þjóð höfum komið til móts við Djúpavog eins og við hefðum átt að gera vegna þess að þar varð gríðarlegt áfall fyrir byggðarlagið. Kvótinn er enn í Grímsey, en það er annað vandamál þar sem er skuldsetning. En kvótinn fór beinlínis frá Djúpavogi og með honum fjöldi starfa og fjöldi fólks fluttist þaðan burt. Þar finnst mér enn verk að vinna. Mér finnst að við gætum gert þetta meira heilsteypt og verið með betri áætlanir fram í tímann, en vissulega er vandamálið í Grímsey þannig að bregðast þurfti við með einhverjum hætti. Ég hef verið jákvæð gagnvart því. Ég sé ekki eftir byggðakvótanum í Grímsey en ég vona að þessar aðgerðir verði til að treysta byggðina og að þær séu ekki skammtímalausn.


Efnisorð er vísa í ræðuna