145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Ég vil taka undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur þegar hún spurði hér áðan af hverju áætlun um minnkun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi hefði ekki verið unnin í þverpólitísku samráði. Þetta er nákvæmlega mál sem á að vera unnið ekki bara í þverpólitísku samráði heldur þverfaglegu og það er ríkur vilji til þess hjá þingmönnum ólíkra flokka á þingi að koma að þeirri vinnu.

Það sem skiptir máli í þessu er að aðgerðir fylgi orðum. Hæstv. ráðherra fór hér yfir ágætismarkmið. En ég spyr: Hvar eru fjármunirnir sem á að setja í rafbílavæðinguna? Hvar eru fjármunirnir sem á að setja í innviðina sem eru nauðsynlegir til þess að sé hægt að rafbílavæða Ísland? Hvar eru fjármunirnir sem á að setja í almenningssamgöngur? Við vitum alveg að þeir eru ekki til staðar. Það er verið að skerða fjármuni til almenningssamgangna frá því samkomulagi sem gert var milli ríkis og Reykjavíkurborgar á sínum tíma á höfuðborgarsvæðinu og við ræddum hér í ágætri sérstakri umræðu í gær. Loftslagssjóðurinn hefur verið skertur til hálfs. Hvar eru fjármunirnir sem eiga að fylgja þessum aðgerðum? Ég get sagt ykkur það. Það eru fjármunir núna við 2. umr. fjárlaga og þeir eru allir eyrnamerktir í skógræktarverkefni, allir eyrnamerktir í bindingu. Það vantar fjármuni og raunverulegar aðgerðir til að draga úr losun. Enn er ekki minnst á losun frá iðnaði af því að hún er í sérstöku losunarbókhaldi. Við getum ekki litið fram hjá því að losun frá iðnaði er 42% af losuninni sem á sér stað hér á landi. Þótt hún sé í sérstöku losunarbókhaldi er það nú svo að þetta er eitt og sama andrúmsloftið. Við þurfum líka að horfa til framtíðar í þeim efnum, hvernig við ætlum að draga úr losun frá iðnaði.

Ég fagna góðum og gegnum markmiðum. Ég hefði hins vegar viljað sjá það að Ísland setti sér það markmið að verða kolefnishlutlaust eins og við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt til í ágætu þingmáli hér. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa það yfir. Við leggjum til að Alþingi sameinist um það og gerð verði aðgerðaáætlun þannig að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2050, það verði unnið í breiðu samráði. Ef eitthvert land á raunverulega möguleika á að ná því (Forseti hringir.) markmiði er það svo sannarlega Ísland. Þar eigum við að setja markið.