145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er nú svo þegar að umræðan fer af stað með ræðu og andsvörum þá finnst manni svo erfitt að það eru í raun bara tveir sem eru að tala saman því mér finnst þetta lýðræðislega samtal skipta svo miklu máli þar sem við skiptumst á skoðunum og tölum okkur, vonandi, að niðurstöðu. Mér finnst þetta vera ferli sem er í sjálfu sér gríðarlega mikilvægt og mig langar svo oft að geta komist inn í samtölin en það er víst ekki hægt og verður kannski langt í það að við getum búið okkur til þingsköp sem leyfa slíkt. En það er þó alla vega eitthvert samtal í gangi núna.

Mig langar að halda áfram þaðan sem frá var horfið hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni varðandi aðskilnaðinn, þ.e. aðskilnað ráðherra og þingmanna, hvort ráðherrar eigi að vera þingmenn, því ég hef svolitlar áhyggjur af því. Mér finnst það kristallast svolítið í þessu máli þar sem skoðanir eru mjög skiptar. Þurfum við ekki meira á þingræðinu að halda og því að ráðherrarnir séu partur af þinginu einmitt þegar um er að ræða umdeild mál sem við erum ósammála um? Mig langar að heyra aðeins meira frá hv. þingmanni um það hvernig hann sér þetta fyrir sér því mér finnst þetta vera flókið og erfitt einmitt í svona átakamálum.