145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Verið er að réttlæta þetta með ýmsum hætti og fram hefur komið hjá ráðherra að starfsemin eigi ekki eftir að breytast neitt, framlag Íslendinga eigi eftir sem áður að nýtast og það verði betri nýting á mannskap og mannafla í ráðuneytinu.

Það hefur líka verið vísað til þess að með því að færa verkefnin til ráðuneytisins frá Þróunarsamvinnustofnun sé tryggt að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands. Lögð er mikil áhersla á að íslensk stjórnvöld tali einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi. Það hefur verið þráspurt um þessa hluti en ekki virðist vera að neinn geti bent á að einhverjir árekstrar hafi verið í þessum efnum varðandi það að Þróunarsamvinnustofnun og þeir sem tala fyrir hennar hönd hafi verið að tala einhverju öðru máli en fellur undir utanríkisstefnu okkar.

Telur hv. þingmaður að þetta séu einhver rök í málinu að af þeim sökum þurfi að færa þetta inn undir ráðuneytið til að halda utan um opinberan málflutning þeirra sem starfa hjá Þróunarsamvinnustofnun? Og hvort það sé ekki bara skynsamlegt að fresta gildistöku á málinu og reyna að ná pólitískri samstöðu og að við fáum faglega úttekt á því hvort þörf sé á að breyta einhverju frá því fyrirkomulagi sem nú er og hvort við getum sameinast um það. Eða þá að við fáum rökstuddari greinargerð (Forseti hringir.) með því af hverju farið er út í þessar gífurlegu breytingar sem þarna eru á ferðinni.