145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég held varðandi kostnaðinn, eins og bent var á áðan, að ekki sé ólíklegt að það hafi í för með sér einhvern kostnað nú í upphafi þegar þetta verður látið renna saman. Í skýrslunni er líka tekið fram að starfsmannafjöldi verði óbreyttur. Það breytist kannski þegar búið verður að afhenda forstöðumanni uppsagnarbréf en þá er ljóst að að minnsta kosti verður sá sparnaður. Að öðru leyti hefur því ekki verið velt upp hverju þarf að breyta, hvað þarf að gera, en alveg ástæða til að kalla eftir því hvernig þau sjái þetta fyrir sér í framkvæmdinni.

Hvaða tillaga væri í stöðunni? Ég held að það væri sú tillaga sem við höfum lagt fram, minni hlutinn á þingi, um í það minnsta að fresta gildistökunni fram til haustsins 2017, þar til eftir kosningar, í þeirri von að við taki ný sjónarmið sem gefi færi á að málið fái að liggja þangað til, það ætti ekki að gera því neinn skaða að fá að liggja. Ég held að sú lausn sé sú eina sem gæti orðið til þess að sættir náist í málinu, þótt ég hafi miklar áhyggjur af því að ekki sé nokkur einasti vilji til þess. Ég held því miður að hæstv. ráðherra hafi bitið það svo í sig að ætla að gera þetta svona að það skipti engu máli hvað við tölum lengi eða hvernig þetta verður, hann ætli sér bara að ná þessu í gegn. Eins og ég rakti áðan og hef rakið áður virðist ekki skipta neinu máli þó að þetta sé ráðherra númer sjö sem fær þetta mál í hendurnar og virðist sá eini sem lætur glepjast af að þetta sé skynsamlegt. Hann kveikir ekki á því að samflokksfélagar hans og ráðherrar sem á undan (Forseti hringir.) honum hafa verið hafa ekki tekið þetta skref.