145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst þetta alveg yfirgengilegt. Hæstv. utanríkisráðherra gerir það ekki endasleppt. Eftir allar þær umræður og alla þá megnu óánægju sem hefur verið með það hér að hann skuli ekki hafa sinnt þessari umræðu sýndi hann örlítinn lit um tíma í dag en það entist ekki lengi. Nú er hæstv. ráðherra gufaður upp og farinn úr húsi, að upplýst er. Ég hélt satt best að segja að hann væri á svæðinu, væri kannski í hliðarsal eða eitthvað því um líkt.

Það leiðir hugann að því sem er að verða á hvers manns vörum í þessu landi, verkleysi þessarar ríkisstjórnar. Ég er farinn að halda að þetta sé eitthvað líffræðilegt líka, þetta sé bara þrekleysi, það verði að fara að senda mönnunum lýsi og vítamín og reyna að koma þeim í gang ef þeir geta ekki hangið hér á kvöldfundi, eru leknir heim klukkan rétt rúmlega 9 að kvöldi, alveg þreklaust fólkið. Ekki hafa seturnar plagað hæstv. utanríkisráðherra svo mikið að undanförnu.

Að öllu gamni slepptu finnst mér þetta ekki við hæfi. Ég hef margskorað á forseta að nota þau tækifæri og tilefni sem hér eru alltaf að koma upp og kenna ráðherrunum mannasiði. Það þarf að gera þeim það ljóst að þeirra mál hreyfist ekki í þinginu nema þeir sinni skyldum sínum og séu til staðar til að svara fyrir þau.