145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:48]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta vekur spurningar hvað varðar gagnsæi. Við erum með lítið samfélag — og það er eitt af því sem er rakið í skýrslunni, sem er notuð sem aðalröksemdin fyrir því að færa þetta inn í ráðuneytið, að það er mikil sérhæfing sem fylgir þessum störfum. Mikil sérþekking á mögulega vel heima inni í ráðuneytinu, ég veit það ekki, það kann vel að vera að þetta falli vel að því sem ráðuneytið er að vinna. En vegna þess hve íslenskt samfélag er lítið er enn mikilvægara að virða þau stjórnskipulegu mörk sem við erum með um að hafa sjálfstæðar stofnanir. Það er enn mikilvægara að við gefum fólki afmarkað valdsvið til að vinna eftir.

Það er þess vegna sem ég held og trúi að betra sé að hafa stofnun eins og Þróunarsamvinnustofnun Íslands í sérstakri stofnun. Það er ekki einungis til að auka gagnsæi heldur einnig til að vera með skýrara ábyrgðarsvið, til að vera með meiri aðgreiningu á valdi. Þetta er spurning um valddreifingu, spurning um það hvort þessi nýja stjórnsýsla, nýja Ísland sem boðað var eftir hrun, verði að veruleika. Við höfum fengið nóg af þessu gamla íslenska höfðingjaveldi þar sem hver og einn situr á sínum höfðingjastóli og ræður sínum ríkjum með góðu útsýni. Mér finnst vera keimur af þessu gamla Íslandi í stað þess að reynt sé að leysa vandamálin og dreifa valdi. Það er númer eitt, tvö og þrjú í þessu máli.