145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur líka fram í áliti minni hlutans að það hefur verið kvartað yfir meintum tvíverknaði, það væri betra að samhæfa þetta þannig að stofnunin rynni inn í ráðuneytið, en það var ekki hægt að veita nein slíkt dæmi inni í nefndinni. Þetta gengur augljóslega ágætlega og Þróunarsamvinnustofnun er fyrirmyndarríkisstofnun. Það virðist ekki vera vandamál. Ég veit það líka að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur kallað til sín fulltrúa úr þróunarsamvinnunefndinni til að fá upplýsingar þegar við vorum að ræða þróunarsamvinnumál. Þetta er það sem við gerum sem alþingismenn. Við köllum til okkar þá sem við höfum falið ákveðin verkefni og eru kjörnir hér á þinginu og eins aðila sem geta veitt okkur upplýsingar utan frá. Í starfi okkar eigum við ekki að sitja á öllum póstum þar sem verið er að taka ákvarðanir heldur veljum við fólk til þess og sækjum síðan upplýsingar til þess ef okkur vantar þær eða teljum eitthvað bjáta á. Það er ósköp eðlilegt verklag, það verklag sem hefur verið viðhaft á Alþingi. Það eru einstaka eftirlegukindur. Ég held að það sé einhver samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar með þingmönnum. Við erum með Þingvallaþjóðgarð í Þingvallanefnd. Þar eru sögulegar ástæður og er það í raun og veru úrelt fyrirbæri þar sem þingmenn velta fyrir sér ýmsum málum varðandi þjóðgarðinn Þingvelli. Af hverju það á að yfirfæra þetta á Þróunarsamvinnustofnun er mér algerlega óskiljanlegt. Mér finnst þetta lykta af því þegar ég les það, og mér finnst það hálfvandræðalegt, að verið sé að búa til bitling fyrir þingmenn og lítinn ferðaklúbb til framandi staða.