145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt það í verki að þróunarsamvinna er ekki efst á hennar forgangslista, miklu fremur afar neðarlega. Samþykkt áætlun um þróunarsamvinnu sem hefði staðið í 0,46% af vergri landsframleiðslu ef henni hefði verið fylgt er komin langt niður fyrir það, 0,23% stóð í nýjustu áætlun utanríkisráðherra sem hefur ekki verið samþykkt og samkvæmt fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra er hún komin niður í 0,21%.

Ríkisstjórnir á Vesturlöndum, þvert á litróf stjórnmálanna frá hægri til vinstri, líta á þróunarsamvinnu sem siðferðilega skyldu sína en það er algjörlega ljóst af verkum ríkisstjórnar Íslands að hún lítur ekki á hana sem siðferðilega skyldu sína. Frumvarpið sem hér liggur fyrir sem snýst um að leggja niður fagstofnun um þróunarsamvinnu og gera hana að deild í utanríkisráðuneytinu er bara punkturinn yfir i-ið í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem þróunarsamvinnu er ýtt út í horn af því að hún lítur ekki á hana sem forgangsmál, lítur ekki á hana sem sína skyldu.