145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að efnisleg umræða um málið virðist hafa farið af stað af hálfu stjórnarmeirihlutans, en hún virðist helst eiga sér stað í atkvæðaskýringum. Hún byrjaði reyndar í atkvæðaskýringum um lengingu þingfundar síðast en ekki um þetta tiltekna mál.

Mér þykir mikilvægt að halda til haga að sú umræða sem á sér stað um framlög Íslands til þróunarsamvinnu skiptir máli. Hún skiptir máli upp á forgangsröðun og upp á það hvernig Íslendingar ætla að standa að þessum málaflokki. Þess vegna er alveg þess virði að ræða það í samhengi við þetta mál eins og reyndar hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa tekið þátt í að gera í atkvæðaskýringum. Það væri óskandi að sú umræða færi meira fram í kringum málið sjálft. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)