145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að Samfylkingin hefur oft talað fyrir aukningu ríkisútgjalda enda trúum við því og vitum að stór og öflugur ríkissjóður er leiðin til að tryggja öfluga almannaþjónustu sem er aðgengileg öllum óháð efnahag.

Varðandi hagstjórn Sjálfstæðisflokksins þá er það bara sögulega þannig að hér hefur verið rekin útþenslustefna á góðæristímum. Farið var í miklar framkvæmdir eins og Kárahnjúkavirkjun á sama tíma og verið var að einkavæða bankana sem leiddi til algerrar ofhitnunar í bankakerfinu. Á sama tíma var verið að lækka skatta með þeim hætti að þegar verr áraði hjá ríkissjóði þá var búið að eyðileggja tekjuöflunarmekanismann í ríkissjóði því að það var ekki til fyrir nauðsynlegum útgjöldum nema hér væri blússandi góðæri.

Og varðandi það að fyrri ríkisstjórn hafi þurft að hækka skatta í illu árferði þá var það einmitt af þeim sökum. En það er auðvitað þannig að ef gera á skattkerfisbreytingar, þá á að laga þær að því að vinna gegn hagsveiflum. Þá getur verið, það er einmitt frekast þegar illa árar að ríkissjóður er í góðu ástandi, að tækifæri sé til að lækka skatta til að auka á hraðann í hagkerfinu. Og svo þegar vel árar þarf að halda í taumana til að ýta ekki enn frekar undir þensluna. En slíkur lúxus var ekki í boði fyrir síðustu ríkisstjórn því að staðan í ríkisfjármálunum var þannig að það þurfti að róa að því öllum árum að koma okkur frá gríðarlegri skuldasöfnun. Og það tókst.