145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að ljúka 2. umr. um þetta mikilvæga mál. Ég hef hlýtt á þingmenn sem hafa tekið til máls og vil segja að þessar umræður hafa verið mjög málefnalegar og gagnlegar og málinu til mikilla heilla. Hér hafa komið fram ábendingar frá nokkrum þingmönnum um að meðal annars þurfi að huga að því að styrkja þingið. Ég minntist á það í framsöguræðu minni að ef til vill þyrftum við að huga að því að breyta þingskapalögum vegna þessa. Verði þetta frumvarp að lögum verður fjárlagaumræðan tvisvar á ári, að vori og að hausti. Þegar lög eru sett verður að vera þannig umgjörð um lagasetninguna að hægt sé að halda lögin, ekki síst þegar þetta snýr að þinginu sjálfu eins og í þessu tilfelli. Það er verið að leggja þær ríku skyldur á Alþingi að geta sett það á dagskrá sína að ræða þessi mál tvisvar á ári. Ég talaði um það þegar ég tók til máls áður að þá verður þingið að vera tilbúið að taka við þessu. Þá er ég að tala um þingmenn. Það hefur oft birst þannig í þinginu, og er ég ekki að draga eitt kjörtímabil út frekar en annað, að hér hefur brostið á mikið málæði, málþóf, sem setur svona þjóðþrifamál í smáuppnám ef ekki er hægt að standast tímasetningarnar sem þessu máli eru ætlaðar. Þetta snýst um heildarramma ríkisins í fjármálum þannig að þetta er kannski veikleikinn sem ég sé á þessu máli sem snýr að okkur þingmönnum.

Ég er tilbúin að skoða þetta og er eiginlega komin hingað upp til að óska eftir því að þetta mál gangi aftur til hv. fjárlaganefndar að umræðu lokinni þannig að við nefndarmenn getum haldið fund um þær ábendingar sem hafa komið fram í þessum umræðum. Til dæmis hefur verið komið til mín einni smávægilegri breytingu varðandi aðgang að upplýsingum sem við tökum örugglega tillit til en við ræðum það að sjálfsögðu í nefndinni.

Varðandi hinn þáttinn, hvernig hægt er að koma aðstoð inn í fjárlaganefnd þegar að þessu kemur, er grundvallarkrafa allra þingmanna að stjórnarandstaða hvers tíma hafi tækifæri og möguleika á því að afla sér allra þeirra upplýsinga sem til þarf til að hægt sé að taka rökrænar og faglegar ályktanir. Þá sé ég alveg fyrir mér að samhliða því að þingsköp verði skoðuð varðandi þetta mál verði gerð alvara úr því að koma á stofn við þingið stabílli, faglegri lagastofnun sem hefði þá kannski líka það hlutverk að hýsa mjög færa hagfræðinga og endurskoðendur. Heill kafli í þessari löggjöf snýr að þeim þætti þannig að við verðum að skoða þetta allt mjög vel.

Málið er býsna vel undirbúið að því leyti að það hefur verið rætt af hálfu tveggja stjórnarmeirihluta. Það fór af stað árið 2011 þannig að tveir ólíkir stjórnarmeirihlutar hafa komið að málinu. Eins og við vitum voru kosningar 2013 og nýir flokkar komu í stjórn. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson tók þetta mál, lagaði það til og flutti á haustþingi strax að afloknum kosningum og gerði það að sínu sem sýnir þá samheldni og eindrægni sem birtist í þinginu um að þetta mál fái brautargengi.

Þess ber líka að geta að ráðuneytin, Ríkisendurskoðun og Fjársýsla ríkisins hafa hafið undirbúning að því að taka á móti þessari löggjöf. Sem betur fer er vinnan komin af stað fyrir þó nokkru og miklar væntingar eru bundnar við málið. Ég minni á að hér er verið að setja ný lög um opinber fjármál sem leysa af hólmi 20 ára gamla löggjöf á þessu sviði.

Það má alveg segja til að slá á létta strengi að hér er verið að setja nokkurs konar stjórnarskrá fyrir kerfið og okkur þingmenn til að vinna að á sviði opinberra fjármála. Ég er stolt af því að hafa leitt þessa vinnu síðastliðin tvö og hálft ár og ég ítreka aftur að það er ánægjulegt hvað umræðan hér í dag var málefnaleg og samhljóma, má segja, þannig að ég er mjög vongóð um að þetta mál fái brautargengi með miklum meiri hluta atkvæða í þinginu. Ég bið jafnframt um að hæstv. forseti vísi málinu til fjárlaganefndar til frekari skoðunar áður en það kemur til 3. umr. og atkvæðagreiðslu og að þegar greidd verða atkvæði um það verði það að lögum.