145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú berast þær fregnir frá Seyðisfirði að Landsbanki Íslands sé að loka útibúi sínu þar og færa starfsemi sína niður um 3,2 stöðugildi. Þeim störfum hafa gegnt þrjár konur og eftir verður eitt stöðugildi sem færist inn í opinbert húsnæði, þ.e. til sýslumannsins, og er ætlunin að það sé opið kl. 12–15 daglega. Þessar þrjár konur sem fengu fyrir stuttu að vita að þær væru að missa vinnuna — tvær af þeim eiga eftir eitt og hálft ár í að komast á eftirlaun og þetta er afskaplega erfið staða fyrir konur á þessum aldri. Það er kannski eitt af því sem við erum að glíma við að ekki er borin virðing fyrir starfsfólki sem er komið yfir ákveðinn aldur og ég tala nú ekki um þegar verið er að skerða og jafnvel eyðileggja ákveðin réttindi fyrir opinberum starfsmönnum.

Bæjarráð Seyðisfjarðar hefur ályktað um þessar aðgerðir. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér fyrri hluta ályktunar bæjarráðs um breytingar á starfsemi og þjónustu Landsbankans:

„Bæjarráði þykir miður að stjórnendur Landsbankans áforma að draga úr starfsemi hans á Seyðisfirði og skerða þjónustu eins og verið hefur.“

Þetta er grafalvarlegt mál og ég skora á Landsbankann, sem er að skila góðum hagnaði, að endurskoða þessa afstöðu sína.


Efnisorð er vísa í ræðuna