145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:36]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurningar frá hv. þingmanni. Í b-lið 3. gr. er verið að gefa ráðherra heimild til að heimila frávik. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars þær athugasemdir sem bárust velferðarnefnd í vor sem sneru sérstaklega að landsbyggðinni eða minni byggðarlögum, að það gæti verið of mikið að vera með þann lágmarksfjölda stofnenda sem nú er í lögum um samvinnufélög sem gilda líka um húsnæðissamvinnufélögin. Niðurstaða okkar var að í staðinn fyrir að hafa lægri tölu í lögunum þá væri heimilt að sækja um frávik. Þá mundu menn þurfa að rökstyðja það og hægt væri að meta það í hvert sinn.

Í raun og veru, miðað við ákvæðið eins og það er núna, væri nánast hægt að fara niður í einn, sem væri hins vegar mjög einkennilegt. Ég tel mikilvægt að velferðarnefnd fari yfir það hvort við mundum vilja setja ramma varðandi þessa heimild ráðherra eða skerpa betur á því hver ætti að vera rökstuðningur fyrir frávikum af því tagi. Hvað varðar hitt þá snýr það í raun að ákveðinni lagatækni. Eins og þingmaðurinn bendir á eigum við ekki að vera með óskrásett húsnæðissamvinnufélög.

Í þessum lögum má segja að við séum að einhverju leyti að reyna að bregðast við ákveðnum dómafordæmum þar sem menn hafa verið að horfa til laga um húsnæðissamvinnufélög þegar verið er að túlka ágreining sem snýr að svokölluðum íbúarétti. Í mínum huga er enginn skýr lagarammi utan um það. Þetta er eitthvað sem dómstólar hafa verið að gera. Við erum að skerpa á því með þessu hvað það er sem gildir um húsnæðissamvinnufélög. Íbúaréttur er í mínum huga ekki búseturéttur. Hér erum við að tala um þrjú form af húsnæði sem ég tel mikilvægt að ramma af. Þetta er það sem við erum að tala um að sé til staðar á íslenskum húsnæðismarkaði. (Forseti hringir.) Annað eigi í raun ekki við. Ég kem að þriðju spurningunni í seinna andsvari mínu.