145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[13:32]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. „Örugg búseta er einn af hornsteinum almennrar velferðar“ segir réttilega í umsögn BSRB um þetta frumvarp. Þess vegna er mikils um vert hvernig um þann viðkvæma hornstein er búið. Nú hefur staðan verið sú á undanförnum árum og áratugum að húsnæðismál hafa verið og eru núna í fullkomnu öngstræti og mikill vandi steðjar að þeim málaflokki.

Húsnæðisverð er svo hátt að fólk getur ekki keypt sína fyrstu íbúð á sama tíma og mjög mikill skortur er á leiguíbúðum og leiguverð allt of hátt. Ungt fólk getur ekki keypt, getur ekki leigt og sér ekki fram á úrlausn í náinni framtíð. Þetta er ástand sem hefur verið illþolanlegt, ekki síst með tilliti til ungs fólks á leigumarkaði því að rannsóknir sýna að leigjendur eru líklegri til að vera í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda eru líklegri en önnur til að lifa við fátækt og skorta efnisleg gæði. Þess vegna er þörf á að styðja við uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæðiskerfi sem kemur til móts við slíkt fólk sem ræður ekki við markaðskjör á húsnæði og getur hvorki keypt né leigt.

Í því samhengi er frumvarpið sem hér liggur fyrir markvert skref. Því er ætlað, eins og fram kemur í markmiðsgrein þess, að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi, að sem flestir geti búið við öryggi í húsnæðismálum og að jafnræði ríki meðal félagsmanna við kaup á búseturétti. Samhliða þessu hefur hæstv. ráðherra boðað annað frumvarp um nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi sem við höfum raunar ekki séð.

Markmið frumvarpsins eru að flestu leyti góð og öllu leyti mundi ég segja. Mikilvægt er að húsnæðissamvinnufélög hafi svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði og hægt sé að haga reglum slíkra félaga og rekstrarlíkani með þeim hætti sem félagsmenn telji að hæfi. Hægt er að taka undir mikilvægi þess að setja nákvæmari ákvæði um fjármál þessara félaga, þörfin á breytingum á því hvernig búseturéttargjald og búsetugjald séu ákveðin og að ákvörðunarvald þar um sé í höndum félagsmanna húsnæðissamvinnufélaga.

Ég get líka tekið undir það sem lagt er til í frumvarpinu að óheimilt sé að greiða fé sem arð eða ígildi arðs út úr húsnæðissamvinnufélögum til þeirra sem að félaginu standa. Þess í stað sé gert ráð fyrir að rekstrarafgangi verði varið til vaxtar og viðhalds félagsins, eins og til niðurgreiðslu lána, og að tryggja að félagsmenn húsnæðissamvinnufélaga séu vel upplýstir um eðli búseturéttar og fjárhagslega áhættu sem kann að felast í þátttöku í slíkum félögum. Hægt er að taka heils hugar undir þau markmið enda eru þau sett af illri nauðsyn vegna mála sem upp hafa komið og hafa verið mjög þung og erfið og erfitt að hugsa til.

Ég fagna því mörgu sem kemur fram í frumvarpinu. Kannski ekki síst því sem kemur fram undir lokin að leitast við að skýra betur ýmis hugtök og orð sem notuð eru í lögum um húsnæðissamvinnufélög og samræma orðnotkun í lögum. Löggjöfin þarf að vera skýr og skrifast ekki bara fyrir lögfræðinga og sérfræðinga, heldur þarf löggjöfin að vera þannig að almenningur sem á hagsmuni sína undir henni geti skilið hana vel. Þetta er allt gott og blessað.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls er örugg búseta einn af hornsteinum almennrar velferðar. Þess vegna tek ég undir með BSRB sem segir í umsögn sinni frá því að frumvarpið var lagt fram í vor, að bregðast þurfi við breyttum þörfum á húsnæðismarkaðnum með markvissum stjórnvaldsaðgerðum til að tryggja öllum viðunandi húsnæði á viðunandi kjörum til framtíðar. Samtökin vekja athygli á í því sambandi að heildstæðar aðgerðir séu grundvallaratriði. Auðvitað leysir þetta tiltekna frumvarp sem og önnur þau frumvörp sem áður hafa komið frá ríkisstjórninni á þessu kjörtímabili aðeins takmarkaðan vanda. Betur má ef duga skal til að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem ríkir núna á húsnæðismarkaði á Íslandi. Til dæmis hafa ekki enn birst tillögur um fjármögnun íbúðarhúsnæðis og skyldur ríkis og sveitarfélaga í því efni, eins og til dæmis Alþýðusambandið bendir á og reyndar líka Hagsmunasamtök heimilanna sem hafa vakið athygli á brýnni þörf fyrir aðgerðir vegna íþyngjandi húsnæðiskostnaðar. Við vitum að einn stærsti liðurinn í þeim kostnaði er fjármagnskostnaður í formi vaxta og verðtryggingar lána þar sem lántökukostnaður á Íslandi er gríðarhár.

Ég vil í heildarsamhenginu minna á að þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar oftar en einu sinni um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Í þeirri tillögu — reyndar eru þetta margar tölusettar tillögur í níu liðum og ég vil aðeins fá að rekja það helsta sem við leggjum fram í þeim tillögum okkar.

Við höfum lagt til í þeirri þingsályktunartillögu að ráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga um nýjar húsnæðisbætur sem tryggi leigjendum sambærilegan stuðning og veittur er þeim sem búa í eigin húsnæði með vaxtabótum.

Við leggjum líka til að frumvarp verði lagt fyrir þingið af ráðherra sem undanþiggi tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti. Skilyrði verði að húsaleiga verði ekki hærri en meðalleiguverð á því svæði þar sem íbúðin er, til að halda aftur af hækkunum á leiguverði.

Við erum líka með hugmyndir um að fólki sem kaupir íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn og tekjulágu fólki verði veitt viðbótarlán með ríkisstuðningi til að fjármagna kaupin.

Að fjármála- og efnahagsráðherra bjóði ónýttar lóðir ríkisins fram til byggingar minni leiguíbúða.

Að umhverfis- og auðlindaráðherra geri Alþingi í skýrslu grein fyrir því endurmati á byggingarreglugerð sem þegar hefur farið fram, til að greiða fyrir byggingu minni og ódýrari íbúða til leigu, og leggi fram áætlun um frekari skref í því efni.

Gengist verði fyrir breytingum á reglum til að auðvelda sveitarfélögum kaup á félagslegum íbúðum á þann veg að skuldir sveitarfélaga vegna íbúðarkaupa falli ekki undir skuldaþak sem sveitarfélög mega ekki fara yfir og að hækkuð verði mörk um fjölda þeirra félagslegu íbúða sem hvert sveitarfélag geti fengið niðurgreitt lán til kaupa á.

Við höfum líka sett fram frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðismál sem tryggi sveitarfélögum sambærilega niðurgreiðslu vaxtakostnaðar frá ríkinu hvort sem lánsfé er fengið hjá Íbúðalánasjóði eða á markaði.

Síðast en ekki síst vil ég nefna hugmynd um að ríkisstjórnin gangist fyrir samkomulagi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbinda sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði.

Þetta eru tillögur sem Samfylkingin hefur lagt fram inn í þetta heildardæmi sem liggur undir og þetta tiltekna frumvarp svarar ekki, enda ekki hægt að ætlast til þess þar sem aðskiljanlegar aðgerðir heyra auðvitað undir mismunandi lagabálka. En mér finnst samt rétt að minna á þessar tillögur vegna þess að ástandið á húsnæðismarkaðnum er og hefur verið þannig undanfarin ár að við það verður ekki unað lengur og engin ástæða til annars en að taka upp þá umræðu í heildarsamhenginu þegar tilefni gefst til.

Eins og ég sagði áðan er örugg búseta einn af hornsteinum almennrar velferðar, eins og bent hefur verið á. Það verður ekki betur orðað en svo. Ég vona að gott samstarf náist við stjórnarflokkana í þessu máli sem öðrum og ég vil brýna hæstv. ráðherra til þess að fara að sýna í þinginu þau frumvörp sem þurfa að koma fram til að takast á við fleiri þætti málsins. Ég fagna því að von skuli vera á frumvarpi um nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi þó að auðvitað sé of snemmt að taka það til efnislegrar umfjöllunar. Er á meðan er, eins og sagt er. Það er gott að frumvarpið er komið fram og ég vona og óska þinginu og nefndinni velfarnaðar í því að leggja því gott til.