145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

markmið Íslands í loftslagsmálum.

[15:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð ráðvilltur eftir þessi svör hæstv. fjármálaráðherra. Deilir hæstv. fjármálaráðherra ekki því markmiði sem hæstv. forsætisráðherra hefur lýst, að Ísland eigi að stefna að því að vera kolefnishlutlaust land? Er það eitthvað hjálplegt í þessari umræðu að tala um hvað við gerum á öðrum sviðum þegar við stöndum til dæmis flestum nágrannalöndum langt að baki hvað varðar almenningssamgöngur? Það er fullt af hlutum sem aðrar þjóðir geta bætt hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda, en það er líka fullt af hlutum sem við getum bætt. Og er ekki ágætt að einbeita sér að þeim?

Ríkisstjórnin hefur lækkað kolefnisgjald eftir að hún tók við, ekki aukið gjaldtöku af kolefni. Það er svo margt sem hægt væri að gera og byggja frekar upp til að flýta rafbílavæðingu til dæmis í stað þess að stíga þessi hænuskref. Við gætum verið að gera fjöldamarga aðra hluti til góðs, en það hjálpar umræðunni nákvæmlega ekki neitt ef menn eru ekki einu sinni (Forseti hringir.) samkvæmir sjálfum sér hvað það varðar að þeir vilji draga úr útblæstri og stefna að því að Ísland sé kolefnishlutlaust land. Er það ekki afstaða (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar allrar? Eða er það bara forsætisráðherra sem vill stefna að því?