145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Haf- og vatnarannsóknir.

199. mál
[16:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vildi strax við upphaf atkvæðagreiðslu gera grein fyrir breytingartillögu sem ég flyt ásamt öllum öðrum nefndarmönnum í hv. atvinnuveganefnd. Eins og hér hefur komið fram styður hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hana líka þó að hún hafi ekki verið á þingi þegar tillagan var tekin út úr nefndinni.

Breytingartillagan er við nokkrar greinar, auðvitað einhverjar lagatæknilegar breytingar, en í stuttu máli er það þannig að í stað þess að stofnunin heiti Haf- og vatnarannsóknir eins og hún átti að heita heiti hún Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Heiti frumvarpsins verður þá líka þetta.

Þetta vildi ég láta koma fram um leið og ég fagna því alveg sérstaklega að allir nefndarmenn atvinnuveganefndar séu flutningsmenn að þeirri breytingartillögu sem hér hefur verið kynnt.