145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það væri mjög æskilegt ef hægt væri að þrengja að notkun verðtryggingarinnar á neytendalánamarkaði. Hérna takast á ýmis sjónarmið. Það þurfa að vera hagfelldar ytri aðstæður og góð skilyrði þegar slíkar breytingar eru gerðar. Varðandi Íslandslánin sem nú er til skoðunar að loka fyrir og þá ekki með þá lengri lán en 25 ára verðtryggð jafngreiðslulán er málið þannig vaxið að við erum að meta áhrifin á getu fólks til að standast greiðslumat við þær breyttu aðstæður. Þá höfum við óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið að tekin verði saman gögn um það hversu margir þeirra sem fóru í greiðslumat og tóku 40 ára lán mundu hafa staðist greiðslumat ef eingöngu hefðu staðið 25 ára lán til boða. Það eru svona hlutir sem mér finnst mestu skipta að við skoðum vandlega. (Forseti hringir.) 40 ára lánin eru þeim eiginleikum gædd að lántakendur velta mjög á undan sér vaxtakostnaði og höfuðstólsafborgunum inn í langa framtíð (Forseti hringir.) sem mér sýnist að margir hafi ekki gert sér almennilega grein fyrir þegar þeir tóku slík lán eins og umræðan hefur verið undanfarin ár um þessa lánategund.