145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

lækkun útvarpsgjalds.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í fyrra samþykkti meiri hlutinn á þingi að lækka svokallað útvarpsgjald til Ríkisútvarpsins í tveimur þrepum. Gjaldið var hækkað í ár og ætlunin er, samkvæmt þeim lögum, að lækka þetta gjald aftur á árinu 2016. Síðan hefur ýmislegt gerst og þar á meðal hefur Ríkisútvarpið staðið fyrir því að selja lóð Ríkisútvarpsins til að bæta skuldastöðu sína. Lögð hefur verið fram stefnumótun til framtíðar, væntanlega í samráði við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem sérstaklega er horft til almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins, horft til hlutverks þess í hinum dreifðu byggðum, hlutverks þess fyrir börn og ungmenni og margt fleira gert. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hann mundi beita sér fyrir því að þessi seinni lækkun yrði ekki, þ.e. að lagt yrði fram frumvarp þar sem þessi síðari lækkun yrði aflýst, ef svo má að orði komast, enda ljóst samkvæmt þeim upplýsingum sem hafa borist frá Ríkisútvarpinu að gangi hún í gegn þýðir það verulegan niðurskurð í rekstri Ríkisútvarpsins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður frumvarpi hans þar sem þessari lækkun er aflýst? Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst okkur um hvað það þýðir fyrir Ríkisútvarpið ef þessi lækkun gengur í gegn. Í ljósi þess að í dag er 3. desember og von var á flestum frumvörpum ríkisstjórnarinnar fyrir mánaðamót spyr ég hæstv. ráðherra líka hvort það sé ekki á hreinu að þetta mál komi inn í þingið fyrir jól og unnt verði að ljúka afgreiðslu þess fyrir jólin þannig að við þurfum ekki á nýjan leik að fara að deila hér um Ríkisútvarpið sem mjög mikilvægt er að við náum sátt um á þingi. Þar hefur hæstv. ráðherra látið hafa ýmislegt eftir sér, líka að nýr þjónustusamningur sé í undirbúningi. Mér finnst mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur á þingi um hvar þetta mál stendur.