145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt að vaxtabætur séu að lækka vegna þess að skuldaniðurfellingin hafi virkað. Þær eru að lækka vegna uppreiknings á verðmæti húsnæðis (Gripið fram í.) Þar af leiðandi eru afborganir fólksins alveg þær sömu og fólk situr uppi með þær af því að þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að gera það að herhvöt sinni að ráðast að meðaltekjufólki (Gripið fram í.) jafnt með niðurskurði (Gripið fram í.) í vaxtabótum og barnabótum. Síðan er alveg greinilegt að hv. þingmaður skilur ekki að þessum bótum er ekki ætlað að bæta tekjumissi. Þeim er ætlað að styðja fólk vegna þess að það er með viðbótarútgjöld. Þetta hefur ekkert að gera með tekjur og þar af leiðandi er ofuráherslan á tekjur og tekjuviðmið röng og felur í sér að ríkisstjórnin skilur ekki hvernig verið er að reyna að hjálpa meðaltekjufólki með vaxtabótum og barnabótum. (Forseti hringir.) Þess vegna er ríkisstjórnin að eyðileggja það og það er svolítið sérstakt að sjá þessa herför ríkisstjórnarinnar gegn meðaltekjufólki og millistéttinni í landinu.