145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um það sem hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi um, afar athyglisverða yfirlýsingu hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar í andsvari við mig áðan um kjör aldraðra og öryrkja, hann er tilbúinn að stuðla að því að aldraðir og öryrkjar fari undir kjararáð eins og forseti Íslands, ráðherrar, dómarar, þingmenn og aðrir. Þetta er merkileg yfirlýsing og ég vil segja það líka að mér þótti það mjög merkileg yfirlýsing í útvarpsþættinum Ísland í bítið í gær þar sem ég var ásamt hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, hv. 6. þm. Norðvest., þar sem við vorum m.a. að tala um þetta mál aldraða og öryrkja. Það var helst að skilja á hv. þingmanni að hún væri hlynnt því að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirka greiðslu eins og mér fannst koma fram hjá hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni. Þarna eru tveir framsóknarmenn komnir.

Það má líka hlusta á það í svörum hennar í þættinum að hún og aðrir framsóknarmenn telji að málið sé ekki búið, það sé verið að skoða það. Hún sagði eiginlega beint, herra forseti, að málið væri á borði hæstv. fjármálaráðherra. Nú er það svo að það er ekki hægt að spyrja sjálfstæðismenn um þetta vegna þess að þeir hafa ekki verið viðstaddir umræðuna um þessar fjáraukatillögur, fulltrúarnir í fjárlaganefnd, en ég lyftist upp við þetta og ber þá von í brjósti að það komi fram tillögur um þessa leiðréttingu, sanngjörnu leiðréttingu.

Hvað varðar samgöngurnar þá reyni ég að koma að því á eftir en mér sýnist í stuttu máli að í tillögum ríkisstjórnarflokkanna í samgöngumálum fari í raun og veru ekki saman hljóð og mynd. Það bara passar ekki saman og ég næ því ekki heim og saman hvernig þetta er, einstaka samþykktir um að gera eitthvað á ferðamannavegum (Forseti hringir.) og svo er ekkert gert. Ég minni á að það áttu að standa yfir framkvæmdir á seinni hluta Dettifossvegar (Forseti hringir.) en það var allt skorið niður, það var fært í annað. Þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, sagði að þessu yrði skilað. Hvernig var því skilað? Með peningum til að taka 3 kílómetra kafla, allt og sumt.