145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þeir samningar sem gerðir voru við sjálfstætt starfandi lækna séu rugl. Þá þarf einfaldlega að taka upp og semja upp á nýtt, þeir ganga ekki.

Jú, ég get alveg fallist á það, virðulegur forseti, að ef hægt er að veita úr ríkissjóði til sjálfstætt starfandi lækna sé hægt að veita á móti fé inn í hið opinbera. En ég vil að það komi fram hér, virðulegur forseti, að þó að ég sé þeirrar skoðunar að fleiri geti boðið upp á læknaþjónustu og rekið heilsugæslustöðvar en hið opinbera, er ég samt í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar, eins og flokkur minn, að heilbrigðiskerfið allt skuli fjármagnað af skattfé og fólk sem þarf á þjónustunni að halda á að geta fengið hana óháð efnahag.