145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið og vil láta þess getið að það var engin ákvörðun tekin í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að sú sem hér stendur ætti ein að tala í umræðu um fjáraukalögin, það er öllum þingmönnum frjálst finnist þeim þeir hafa eitthvað að segja.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá kom ég að hluta til inn á það í svari mínu við hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Ég lít svo á að Alþingi beri að sjá um og búa þannig um hnútana að kjör öryrkja sem ekki hafa valið að vera í þeim hópi séu slík að öryrki geti séð sér farborða. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar við stöndum frammi fyrir því t.d. að einstæð móðir með tvö börn, kennari að mennt í 100% vinnu, ber minna úr býtum en einstæð móðir, öryrki með tvö börn, þá sé ekki rétt gefið. Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem vinna fulla vinnu eigi að njóta afraksturs þess, en við eigum hins vegar að búa þannig um hnútana að þeir sem eru á hinum kantinum geti lifað mannsæmandi lífi. Okkur ber siðferðileg skylda til þess.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan. Æðimargir aldraðir nú hafa greitt í lífeyrissjóði í 30–40 ár og hafa þar borð fyrir báru ef við getum orðað það svo. Þannig að ég lít ekki þannig á, virðulegur forseti, að ellilífeyrir eða grunnlífeyrir (Forseti hringir.) frá Tryggingastofnun eigi að vera afturvirkur almennt, það er ekki mín skoðun.