145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru yfirgripsmiklar spurningar. Ég vil byrja á að þakka andsvarið og segja varðandi yfirlýsingar á miðju ári um útgjöld að þá eru þær náttúrlega mjög á skjön við þau fjárreiðulög sem við búum við, því að þar er algjörlega verið að hunsa fjárveitingavald Alþingis. Má kannski segja að við upplifðum það mjög sterkt þegar rammaáætlun, sem hér er samþykkt og er plagg sem er mjög skipulagt ferli sem á að fylgja, var að engu höfð. Reynt var að hafa hana að engu en okkur í minni hlutanum tókst að koma í veg fyrir það. Segja má það sama um samgönguáætlun líka, það fer svona eftir behag hvernig fólk hefur þær áætlanir.

En með ferðamannastaðina og vegagerðina, þær yfirlýsingar verða svo hlálegar því að auðvitað vissu menn og konur það í fjárlagagerðinni að þeir fjármunir þyrftu að koma til. Það lítur bara betur út þegar þú leggur fram fjárlagafrumvarp með hagfelldari niðurstöðu og kemur svo og bætir aðeins inn í það svo minna beri á, en þú getur samt slegið þig til riddara á miðju ári. Þetta er einhvers konar aðferðafræði sem er afskaplega óheppileg og stuðlar ekki að aga í ríkisfjármálum og er í raun og veru til þess fallin að dylja hver staðan er í ríkisfjármálunum hverju sinni.

Varðandi barnabæturnar, á Norðurlöndunum eru almennar barnabætur þar sem hvert einasta barn fær barnabætur, það er framlag ríkisins, og ekki síður er tekin jöfnun innan tekjubila sem þar eru á ferðinni, en nú er búið að leika barnabæturnar svo hart á Íslandi, að fólk á lágmarkslaunum nær vart (Forseti hringir.) óskertum barnabótum.