145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tala hér í annað sinn í þessu máli. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en fyrr í dag virtist sem þetta yrði mjög umrætt mál svo að ég ákvað að setja sjálfa mig á mælendaskrá til að bregðast við einhverju af því sem hefur verið sagt hér. Raunverulega er verið að mistúlka orð mín eins og til dæmis það að ég hafi sagt hér í ræðustóli, líklega í andsvari, að ég liti svo á að skattur af arði væri sambærilegur við veiðigjöld.

Ég ætla bara að leiðrétta það hér í eitt skipti fyrir öll því að svo flaug þetta inn í allar ræður hjá stjórnarandstöðunni. Ég sagði að veiðigjald væri áþekkt tekjuskatti á sjávarútvegsfyrirtæki. Það gefur augaleið að þegar veiðigjald er haft mjög hátt skila fyrirtækin ekki eins miklum hagnaði og þá dregur úr skatttekjum til ríkisins af þeim sökum. Nú er þetta svo að það þarf að finna þetta jafnvægi þannig að báðir aðilar geti við unað og að sem mestar tekjur komi út úr fiskveiðistjórnarkerfinu. Við teljum að það sé gert með þeim hætti að lækka veiðigjald örlítið. Þar með hefur það skapað ríkinu enn frekari skatttekjur en var á síðasta kjörtímabili.

Það er akkúrat þetta atriði sem kennt er við Laffer, Laffer-kúrfan: Þegar skattheimta er orðin of há þá dragast tekjur ríkisins saman á móti. Eins teljum við að veiðigjaldið hafi verið orðið of hátt síðustu kjörtímabilin og þess vegna drógust skatttekjurnar frá sem því nam.

Ég ætla svo sem ekki að elta ólar við allt sem hefur verið sagt í þessari umræðu. Ég reikna með að þessu máli verði vísað aftur til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. Hér hefur komið fram breytingartillaga frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og fleirum sem við komum líklega til með að ræða. Að þessum umræðum loknum reikna ég með að þessu verði vísað aftur til fjárlaganefndar. Ég tel ágætt að fjárlaganefnd haldi eins og einn fund um þetta mál áður en til 3. umr. kemur. Því að með þessu frumvarpi erum við að loka fjárlögum endanlega fyrir árið 2015.