145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað. Engin samgönguáætlun hefur verið lögð fram til samþykktar af hálfu núverandi ríkisstjórnar og við erum komin hér á þriðja ár, kjörtímabilið ríflega hálfnað og vel það.

Eins og hér hefur komið fram eru markaðir tekjustofnar hærri og þess vegna er hægt að veita meiri peninga þó að þeir þyrftu að vera mun meiri, en þeir þurfa líka að vera samkvæmt einhverju plani, ekki bara hipsumhaps og út í loftið. Vetrarþjónustan hefur vissulega verið vanfjármögnuð mjög lengi. En það bókhaldsbix sem hér er er til þess fallið að auka enn frekar neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar. Fæstir skilja kannski hvað neikvætt eigið fé er því að það á jú ekki að vera neikvætt, en þetta þýðir að Vegagerðin er að safna upp meiri skuldum við ríkissjóð sem er auðvitað óásættanlegt vegna þess að inn í neikvætt eigið fé hafa verið teknar skuldir eða öllu heldur framkvæmdir sem áttu ekki að fara inn á þessum lið. En fyrst og fremst er þetta auðvitað vanáætlun til Vegagerðarinnar og þar af leiðandi, (Forseti hringir.) eins og við sjáum í framkomnu fjárlagafrumvarpi næsta árs, algjörlega vanfjármagnað vegakerfi.