145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, hv. þingmaður, það liggur ekkert annað að baki. Ég gaf ekki upp neinar tölur, ég vil benda hv. formanni fjárlaganefndar á það. Ég nefndi ekki neinar tölur í ræðu minni. Ég er líka búin að lesa meirihlutaálitið. Ég er líka búin að hlusta á forsvarsmenn RÚV koma á fund til okkar og tjá sig um stöðu mála. Það hefur komið fram, og ég stend alveg bak við þá skoðun, að RÚV telur sig ekki geta rekið sig á þeim fjármunum sem reiddir eru fram af hálfu núverandi ríkisstjórnar, hvað svo sem formanni fjárlaganefndar finnst að þeir eigi að geta gert.

Við verðum þá bara að fara í það að skilgreina hlutverk RÚV. Það er alveg ljóst. Ef það á að vera eitthvað annað en það er nú þegar, þarf hv. formaður fjárlaganefndar bara að leggja til að það verði gert. En RÚV og stjórn RÚV og forstjóri RÚV hefur sagt: Þetta dugir ekki til. Við það stend ég. Ég hef ekki nefnt hér neinar tölur eða hvenær eða hvað var lækkað, eins og hv. þingmaður gaf í skyn. En það er augljóst að þeir fjármunir sem (Forseti hringir.) lögin byggja á, þ.e. að gjaldið eigi að fara lækkandi, úr 19.000 í 16.400, duga ekki til, segir framkvæmdastjórn RÚV.