145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru stórar pælingar. Ég held að vísu að lausnin varðandi lífeyrismálin snúi að því að við höfum frelsi til að velja. Það er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í útlöndum þannig að við séum ekki með öll eggin í sömu körfunni.

Varðandi einkarekstur: Þetta er einkareksturinn í heilbrigðisþjónustunni. Við höfum áratugareynslu af því og skandinavísku löndin líka. Ég held að það sé mikilvægt að kerfið sé þannig að þetta sé fjármagnað að stærstum hluta af hinu opinbera, af sameiginlegum sjóðum; að við séum með þessa reglu sem við erum með um að allir hafi aðgang. Hins vegar er það þannig að flest hjúkrunarheimilin eða nærri öll eru einkarekin. Það er bara gott. Ég held að það væri óskynsamlegt að ríkið tæki yfir. Ríkið hefur ekki góða reynslu af að reka hjúkrunarheimili á meðan við höfum Landspítalann í ríkisrekstri og ég held að væri óskynsamlegt eða sé það ekki fyrir mér hvernig við ættum að breyta því. En þetta gengur út á það að allir hafi sama aðgang. Þess vegna kemur ríkið að þessu. Ef við förum einhvern tíma þannig og það getur gerst, að við erum ekki með nægilega þjónustu, þá geta einkaaðilar farið fram sem menn borga þá bara sjálfir og fara fram fyrir.