145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi tryggingagjaldið. Á öðrum vettvangi talaði hann um að hægt hefði verið að lækka tryggingagjaldið um allt að 2% með tilliti til minnkandi atvinnuleysis. Nú er það samt svo að tryggingagjaldshlutinn, þ.e. atvinnutryggingagjaldið sjálft, er 1,35%, og það er ekki hægt að lækka það um 2% þannig að það yrði þá að lækka almenna tryggingagjaldið líka, sem er 5,9%, en af því að þetta er gjald ætti að liggja mjög vel fyrir í hvað peningurinn fer. Mikill hluti fer í lífeyris- og slysatryggingar, sem virðist fara inn í einhvers konar hít í Tryggingastofnun og er kannski erfiðara að fylgja eftir, en af því að þetta er gjald ættum við að vita hvert það fer því að það þarf að endurskoða á hverju ári hvort gjaldið sé of hátt eða of lágt.

Smá leiðrétting varðandi barnabæturnar. Skerðing hjá einstaklingi hefst við 200 þús. kr., í sambúð hefst skerðingin við 400 þús. kr., sem er samt mjög lágt. Það á við um tæplega 10% þjóðarinnar þar sem tekjulægstu 10% eru með 192 þús. kr. eða svo í laun, það er meðaltal af því hlutfalli. Hvað fæðingarorlofið varðar finnst mér þurfa að vera ákveðin mælanleg markmið þar sem réttilega var sagt að aðallega hærra launaðir feður hafa tekið styttra fæðingarorlof. Fyrir skerðingu var það hlutfall mjög jafnt, allir tóku svipað langt (Forseti hringir.) fæðingarorlof. Það væri áhugavert að vita hvernig við getum náð því aftur án þess að það kosti of mikinn pening.