145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst af þeim upplýsingum sem fram komu í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að þá væri kannski hægt að ná samkomulagi um að allir þeir framsóknarmenn sem eru á mælendaskrá flyttu ræður sínar í nótt ef við hin mættum tala í björtu.

En staðan er sú að 2. umr. um fjárlög átti að fara fram 27. nóvember en núna er 9. desember. Og það vita allir af hverju þessi umræða tafðist svona, það er af því að meiri hluti fjárlaganefndar lauk ekki störfum fyrr en í einhverju fáti á laugardegi núna fyrir helgi. Stjórnarliðið hefur því við engan að sakast nema sjálft sig. Ríkisstjórn og meiri hluti, forusta fjárlaganefndar bera ábyrgð á því að málið hefur tafist langt umfram starfsáætlun og það fer að verða naumur tími eftir í desember.

Ég segi fyrir mitt leyti, forseti, að samkvæmt venju væri engin ástæða til að gera ágreining um kvöldfund og ef fyrir lægi samstaða í grófum dráttum um að ljúka störfum á miðnætti annan daginn í röð mundi ég ekki leggjast gegn því. En ef forseti er að fara fram á heimild fyrir opnum næturfundi og getur ekkert upplýst um hversu langt inn í nóttina það á að standa er eðlilegt að menn geri athugasemdir.

Ég spyr því forseta (Forseti hringir.) aftur í vinsemd: Er ekki hægt kannski að afmarka þetta aðeins betur og jafnvel komast þá hjá ágreiningi um málið?