145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hafði smáforleik í gær að því sem ég ætla að tala um núna, þ.e. peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Hún kom saman í morgun og birti þá ákvörðun sína að halda stýrivöxtum óbreyttum. Í niðurstöðu nefndarinnar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðbólga mældist 2% í nóvember. Hún hefur aukist minna undanfarið en spáð var vegna þess að lækkun alþjóðlegs hrávöru- og olíuverðs og hækkun á gengi krónunnar hafa vegið á móti innlendum verðhækkunum.“

Þetta er rangt. Verðbólga í síðasta mánuði var 0,3%. Hins vegar hækkaði húsnæðisliður meira og hífði verðbólgu upp í 1,8%. Menn halda því áfram að kynda undir innlendri kostnaðarhækkun með því að halda stýrivöxtum í 5,75%. Í raun og veru eru þeir 6,25% eins og þeir eru auglýstir erlendis.

Og enn býður Seðlabankinn til vaxtamunarveislu sem hefur orðið til þess að ég hyggst leggja fram fyrirspurn um það hvernig fé hefur flætt inn í landið í boði Seðlabankans og hvaða vandræði geta stafað þar af.

Það er aldeilis algjörlega furðulegt að samfara þessu lækkar Seðlabankinn bindiskyldu niður í 1,5% og kyndir þá undir eignabólu sem að sjálfsögðu skilar sér svo í verðbólgu. Þessi ákvörðun Seðlabankans í morgun er gott dæmi um það þegar getuleysi og kjarkleysi fara saman. Svo virðist sem ekki nokkur maður sé með getu eða kjark þarna innan borðs sem þori að fara eftir því (Forseti hringir.) sem er raunverulega að gerast hér í efnahagsmálum.


Efnisorð er vísa í ræðuna