145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. 9. desember, þ.e. í dag, er alþjóðadagur gegn spillingu ár hvert. Í yfirlýsingu frá þeirri stofnun Sameinuðu þjóðanna sem glímir helst við spillingu segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Við þurfum öflugt bandalag ríkisstjórna, atvinnurekenda, borgaralegs samfélags, menntastofnana og fjölmiðla til að berjast gegn spillingu og efla nýja siðferðiskennd.“

Spilling er líka talin stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir efnahagslegri og félagslegri þróun í heiminum.

Í eina tíð var spilling talin lítil á Íslandi á alþjóðlega mælikvarða, mældist nánast ekki. Nú vitum við betur. Spilling var landlæg og hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið allt. Því miður er spilling í stjórnmálum að aukast að nýju. Það er spilling þegar þingmenn ganga erinda hagsmunaaðila innan þings sem utan eins og mörg dæmi eru um að undanförnu. Það er merki um spillingu þegar þingmenn breyta leikreglum, t.d. í fjárlaganefnd við úthlutun fjármuna, að því er best verður séð í þeim tilgangi einum að geta ráðstafað opinberum peningum að eigin vild án faglegrar umfjöllunar eða nauðsynlegs gagnsæis. Það er merki um spillingu þegar ráðherrar knýja fram byggingarframkvæmdir byggðar á 100 ára gömlum teikningum í þeim tilgangi einum að svala þörf sinni og áhugamálum um gamlar byggingar. Það er spilling þegar stjórnmálaflokkar sem þegið hafa háa styrki frá hagsmunaaðilum í atvinnulífinu beita sér sérstaklega í þeirra þágu á Alþingi og nota til þess opinbert fé. Það er spilling þegar ráðherrar og þingmenn beita sér sérstaklega í málum sem snerta þá persónulega umfram aðra.

Þingmönnum ber að sjá til þess að spilling þrífist ekki og fái ekki þrifist á Alþingi. Störf þingmanna verða að vera hafin yfir allan vafa hvað það varðar. Það verður að vera hægt að treysta á þingið og þingmenn. Því miður vantar talsvert upp á að svo sé og á því verður þingið að taka.


Efnisorð er vísa í ræðuna