145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:40]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti það í ræðu minni áðan. En til að við getum ráðist í innviðafjárfestingar og framkvæmdir — það er þá svar mitt við lokaspurningu þingmannsins um hverjar aðrar áherslur eru, þá sagði ég: Stærsta verkefni okkar er að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs (Gripið fram í.) og lækka þar með útgjöld ríkissjóðs til að greiða vexti og geta notað þá fjármuni til að fjárfesta í innviðum sem við þurfum að gera.

Ég er sammála þingmanninum um að það að fresta viðhaldi vega, viðhaldi flugvalla og hvað svo sem við nefnum hér til sögunnar, er skammgóður vermir. En sala fjármálafyrirtækja, annarra fyrirtækja og félaga sem ríkið á til þess að losa um fjármuni til að ráðast í þessar fjárfestingar, en þó með þeim fyrirvara að það sé hægt eða mögulegt vegna annarra aðstæðna í efnahagslífinu sem ekki leiða til þenslu eða erfiðleika á öðrum sviðum, er einfaldlega svar mitt við spurningunni um hverjar áherslurnar væru.