145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:17]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er reyndar rétt að ræðan var kannski ekki uppbyggjandi að mati þingmannsins vegna þess að tilefnið er ekki uppbyggilegt, tilefnin voru nefnilega fjárlög næsta árs, þau vekja hvorki gleði né kæti.

Heitið hrunríkisstjórnin á ekki við um þá ríkisstjórn sem hér tók við stjórnartaumum í ársbyrjun 2009 eftir efnahagshrunið 2008. Það vita náttúrlega allir sem fylgst hafa með stjórnmálum og lifað í þessu landi lengur en 20 ár, að það var einmitt stefna, einkavæðingaáform og markaðssýki hægri flokkanna sem leiddi yfir okkur það hrun sem við máttum síðan (Gripið fram í.) takast á við og erum enn að bíta úr nálinni með. (Gripið fram í: Alveg rétt.) Ei veldur sá er varar, segir máltækið og (Gripið fram í.) þegar ég stend hér og fleiri félagshyggjumenn í ræðustóli Alþingis og vara við því hvert stefnir núna með þeim einkavæðingaáformum sem eru á döfinni og með þeirri markaðshyggju sem greinilega er búin að grípa um sig aftur meðal þingmanna stjórnarflokkanna, þá verð ég nú varla sökuð um að vera meðvirk í hrunhugmyndafræði. Ég vara við þeirri stefnu sem við erum á, hv. þingmaður, og ég tel að það færi betur á því að menn hlustuðu aðeins núna. Það eru ekki nema örfá ár frá því mikla hruni sem olli okkur svo miklum búsifjum. Það er satt að segja hálfóhuggulegt að fylgjast með því hversu hratt hugmyndafræðin er að streyma inn í allt of gamalkunnan farveg.