145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég hef verið að skoða og hugsa mikið um þau vinnubrögð sem snúa að safnliðum og öðru og fannst mjög gott skref vera tekið á síðasta kjörtímabili þegar þeir voru færðir að miklu leyti í ráðuneytin og jafnvel inn í svona sjóðakerfi þar sem samtök og aðilar sækja um. Mér finnst ekki gott að verið sé að taka þessa liði aftur inn í fjárlaganefnd og að þingið — við getum alveg orðað það þannig að þingið sé að hlutast til um þetta, en raunverulega eru það kannski bara sex manneskjur.

Ég skil hv. þingmann að honum finnist aðkoma þingsins að svona málum, einhverjum einstaka félagasamtökum og öðru slíku, að hún sé góð. En ég mundi vilja fá meiri útskýringar á því vegna þess að ég tel að hv. þingmaður vilji hafa fagleg vinnubrögð. Hvernig finnst honum að við eigum að haga þessu? Var það ekki rétt skref á síðasta kjörtímabili að færa þetta inn í ráðuneytin?