145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir sumu leyti með hv. þingmanni að það fer þá að skipta máli hvernig tengingar eru inn í ráðuneytin, þar er auðvitað líka fólk, en það er þó þannig að við eigum að hafa eftirlit með ráðuneytunum og um allar þeirra athafnir gilda væntanlega stjórnsýslulög.

En þá að öðru. Við höfum gagnrýnt hvernig verið er að úthluta fjármunum í byggðamál. Ég hef verið mjög hrifin af sóknaráætlun landshluta, á því verklagi sem þar er. Er hv. þingmaður sammála mér í því að mun gæfulegra hefði verið að setja stóraukið fjármagn í sóknaráætlun landshluta og láta heimamönnum eftir að forgangsraða og útdeila peningum í staðinn fyrir að í einhverju tilfelli sé það norðvesturnefnd sem tekur ákvarðanir, ég veit ekki hvernig það var gert, og síðan sé líka verið að setja fjármuni í byggðamál? Ég hef alla vega ekki séð rökstuðninginn fyrir því þannig að ég lít á það sem svolítið tilviljanakennt.