145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:29]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir mjög góða ræðu. Ég er sammála flestu sem hann sagði, ekki alveg öllu, en það kemur mér svo sem ekki á óvart að ég skuli vera sammála honum þar sem ég veit að Ögmundur er innst inni framsóknarmaður þó að hann hallist óþægilega oft til langt til vinstri í einstaka málum. Það er svo sem hægt að fyrirgefa það.

Það sem mig langar til að spyrja hann út í og hann kom inn á er starfsemi Ríkisútvarpsins. Hann varaði við niðurskurði þar og því að RÚV færi út af auglýsingamarkaði. Ég er alveg sammála því og hef lýst því yfir að ekki eigi að skera of mikið niður hjá RÚV, en það má vissulega hagræða þar talsvert. Þess vegna langar mig að nýta þetta tækifæri og spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson að því hvort hann sé ekki sömu skoðunar, að það megi hagræða í rekstri RÚV. Má t.d. ekki (Forseti hringir.) selja Rás 2? Hvað um að RÚV láti af því að sýna afþreyingarefni í sjónvarpi (Forseti hringir.) og haldi sig við menningarefni? Og síðast en ekki síst, hvort hann telur að sú breyting að breyta (Forseti hringir.) félaginu í opinbert hlutafélag hafi heppnast.