145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við greiddum atkvæði hér fyrr í dag um lengd þingfundar. Fyrir lá að hæstv. forseti sótti þar með heimild til að við mundum funda fram á kvöld. Það lá ekki fyrir þá í samskiptum við forseta hversu lengi forseti hygðist halda fundinum áfram en mælendaskráin er mjög löng og ljóst að þessi umræða á töluvert í land.

Í fyrramálið eru áætlaðir fundir í þremur þingnefndum, í einni kl. 8.30 og tveimur kl. 9 og svo er fyrirhugaður fundur með öryrkjum og öldruðum í fjárlaganefnd í hádeginu og væntanlega vilja nefndarmenn hafa tíma til að undirbúa þessa fundi.

Ég spyr, forseti: Hvað er fyrirhugað að halda þessum þingfundi lengi áfram? Við viljum auðvitað hafa það þannig að það sé einhver sómi að því yfirbragði sem er hér á þingfundinum þannig að menn séu ekki að halda sína fyrstu ræðu um miðjar nætur. Ég bið forseta um að verða við þeirri frómu ósk að upplýsa þingið um sín áform.