145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú eru mér lögð orð í munn utan úr sal sem ég mun ekki þiggja. Mér finnst alveg sjálfsagt þegar fundur er framlengdur fram á kvöld eða nótt að við þingmenn fáum að vita í upphafi að það eigi að vera fundur til dæmis til kl. 2 eftir miðnætti. Þá vitum við það bara, eða til 3 eða 4. Hvaða feimnismál er það að gefa það ekki upp í upphafi? Það er eins og verið sé að halda við einhverri spennu og svo kemur fundarstjórn. Þetta er alltaf sama sagan.

Mér dettur í hug hvort verið sé að láta okkur þingmenn vinna fyrir kaupinu okkar, það er nýbúin að vera hækkun aftur í tímann og að nú eigi að láta þingmenn vinna fyrir kaupinu sínu. En þá geri ég þá kröfu, hæstv. forseti, að allir þingmenn þurfi þá að vera á þessum vinnustað og vinna fyrir kaupinu sínu (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og séu hér þar til vinnu lýkur. Ég bið þá hæstv. forseta að kalla þá alla þingmenn (Forseti hringir.) út þannig að við séum ekki bara hluti þingmanna hér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)