145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni hvers vegna fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar fóru í það að hækka bætur á miðju ári. Það var vegna yfirlýsingar sem gefin var í tilefni kjarasamninga þar sem ríkisstjórn sem skert hafði bætur vildi ekki ganga að kröfum og beiðni þessara sömu samtaka og hv. þingmaður vísar hér til um að afnema þær skerðingar. Hvers vegna ekki? Vegna þess að menn vildu ekki viðurkenna að þeir hefðu gert mistök og fóru þess í stað þá leið sem aldrei hefur verið farin áður. Þeir koma nú hér upp og halda því fram að þeir hefðu viljað hafa hlutina með einhverjum allt öðrum hætti en löggjöfin gerði ráð fyrir. Það er einkennilegt og ef menn vilja vera samkvæmir sjálfum sér, þá spyr ég á móti: Hvers vegna breyttu þeir þá ekki löggjöfinni?