145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forseta, sumar ræður eru betur fluttar á nóttunni en deginum. Mörgum líkar líka miklu betur að vera annars staðar en heima hjá sér á nóttunni. Ég er nú ekki í þeim hóp eins og allir vita. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Ekki fyrr en eftir …) Hins vegar segi ég að það vakti athygli mína hér í gær að við, þessi sem höfum verið mjög lengi á dögum, höfðum úthaldið til að sitja umræðuna. Við erum alveg reiðubúnir að vera áfram og ég hvet hæstv. forseta til að vera að minnsta kosti til kl. 12. Hins vegar sá ég að af ýmsum yngri mönnum sem veikburða sýndu tilburði til að taka þátt í umræðunni var mjög dregið. Ég er ekkert sérstaklega að horfa á fyrrverandi formann Lögmannafélagsins [Hlátur í þingsal.] eða formann þingflokks framsóknarmanna. Hins vegar tel ég að ef hæstv. forseti ætlar að hafa fund langt fram eftir nóttu, sem ég út af fyrir sig ætla ekkert að mótmæla á þessu stigi, nema þá hugsanlega með tilliti til heilsufars yngri þingmanna, er það eiginlega lágmark að þeir sem við þurfum að eiga orðastað við (Forseti hringir.) séu hér. Hér hafa menn haldið miklar ræður, eins og hv. þingmenn Óli Björn Kárason og Guðlaugur Þór Þórðarson, fullar af þess konar efni að því þarf að svara og þá þýðir ekkert fyrir slíka menn að hundskast heim í bælið sitt og sofa þar þegar menn vilja eiga við þá orðastað.