145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

hækkun launa og bóta.

[10:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hér sé að aukast kaupmáttur. Það nýtist náttúrlega öllu samfélaginu, ekki hvað síst þeim sem hafa minnst á milli handanna. Ég minni hv. þingmann síðan á það sem hann og hans félagar stóðu að, sett var í forgang strax og þessi ríkisstjórn tók við að draga úr þeim skerðingum sem bótaþegar sættu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Strax sumarið 2013 var afnumin sú regla að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja var hækkað, frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna var hækkað, víxlverkun og samkomulag vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt, skerðingarhlutfall tekjutrygginga var lækkað í 38,35% þann 1. janúar 2014. Þannig höfum við tekið til baka þær skerðingar sem hv. þingmaður stóð að sem þáverandi fjármálaráðherra í fyrri ríkisstjórn. Það þýðir að bætur eru 7,4 milljörðum kr. hærri á ári en annars væri.

Síðan, eins og fram kom í fyrra svari mínu við hv. þm. Helga Hjörvar, munu bætur hækka um 14,2 milljarða 1. janúar 2016, sem er hækkun um 9,7%. Og eins og fram kom í því svari, því að það er endurtekið efni hér, er 3,9 milljarða hækkun vegna launaþróunar á árinu. Ofan á það bætast 4,3 milljarðar sem aldraðir og öryrkjar fengu í janúar 2014 en ekki aðrir. Hér sést áhersla okkar á að bæta kjör þessara hópa. Við munum halda því áfram. Það eru ekki orðin tóm eins og sést á þessum tölum.