145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru umræður og ákveðnar deilur sem eru í raun árvissar þegar fjárlögin eru afgreidd í þinginu og út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það. Áherslur flokka og einstaklinga eru mismunandi þegar kemur að því hvernig skipta eigi tekjum ríkisins og tekist er á um það og sitt sýnist hverjum.

Það er eitt sem minna er rætt á þessum vettvangi þegar umræða fer fram um fjárlög og það er hvernig við eigum að afla þeirra tekna sem eru til skiptanna. Það hefur svo sem valdið deilum í þinginu líka. Þegar menn, sem helst gagnrýna stefnu stjórnvalda, eru inntir eftir því hvaða leiðir eigi að fara þá koma tiltölulega ódýrar lausnir í þeim efnum. Helst eru nefndar til sögunnar einhvers konar skattahækkanir. Það eru almennt lausnir vinstri flokka þegar kemur að því að stækka kökuna að það eigi að gerast með skattahækkunum á einstaklinga og á atvinnulífið.

Áhersla þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd hefur snúist um aðra þætti. Hún snýst fyrst og fremst um það hvernig við getum aukið verðmætasköpun samfélagsins, hvernig getum við stækkað kökuna, hvernig við getum eflt atvinnulífið og styrkt viðgang þess þannig að fleiri tækifæri skapist í samfélaginu og meiri verðmætasköpun. Það er auðvitað mikið áhyggjumál fyrir okkur sem erum áhugasöm um þann vettvang sérstaklega að mælingar sýna minni framlegð almennt í atvinnulífi okkar en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er talað um allt að 20% minni framlegð í íslensku atvinnulífi en almennt í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að taka til rækilegrar skoðunar. Þetta hlýtur að vera grunnurinn að því hvernig okkur tekst til í framtíðinni á sama tíma og við horfum fram á það að heilbrigðismál til að mynda munu samkvæmt spám fara úr því að vera frá 1985 um 7,1% af vergri landsframleiðslu upp í allt að 14% eftir 20–25 ár. Á sama tíma mun vinnandi höndum einnig fækka á bak við hvern eldri borgara. Í dag erum við með fimm á vinnumarkaði á bak við hvern eldri borgara en það verður komið niður í tvo til þrjá eftir 25–30 ár. Það gefur augaleið að í fjárlagagerð framtíðarinnar mun verða við ramman reip að draga ef ekki verður brugðist við því hvernig við ætlum að efla verðmætasköpun og framlegð í atvinnulífinu.

Við getum tengt þetta, virðulegi forseti, við umræðuna um byggðaþróun sem skiptir okkur öll miklu máli og er auðvitað hluti af fjárlagagerðinni eins og flest mál sem við fjöllum um í þinginu. Hvernig ætlum við að skapa byggðafestu? Hvernig ætlum við að tryggja að það verði dreifð byggð í landinu og öflugt samfélag sem getur þrifist þar? Í byggðafestu hefur á undanförnum árum helst verið horft til sjávarútvegs. Menn hafa talað um að þær breytingar sem hafa verið gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu hafi leitt til byggðaröskunar. Vissulega má það til sanns vegar færa. Markmiðið sem lagt var upp með á sínum tíma þegar að við fórum í þá vegferð var að stýra af meiri skynsemi nýtingu okkar á sjávarauðlindinni. Þetta var fyrirsjáanlegt í þeim markmiðum sem sett voru, bæði við setningu kvótakerfisins og við heimild framsalsins sem var sett á sínum tíma af þeim flokkum sem þá voru í ríkisstjórn, Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki sem kannast ekki oft við krógann sinn í þeim efnum. Þetta var eitt af framfaraskrefum í íslenskum sjávarútvegi og í íslensku fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta hafði augljóslega þau markmið að ef ekki yrði brugðist við gæti fylgt því ákveðin byggðaröskun.

Nú horfum við upp á að það eru í raun aðeins tvær atvinnugreinar í landinu, vissulega mjög veigamiklar og öflugar, sjávarútvegur og orkutengdur iðnaður, sem standast samanburð við framlegð. Við sjáum fram á að í þessum greinum mun tækniþróuninni fleygja fram á næstu árum. Nú er mikil bylting í fiskvinnslu, bylting sem menn líkja við það þegar flökunarvélin kom til sögunnar. Þessi bylting felst í ákveðinni skurðartækni sem mun fyrirsjáanlega fækka fiskvinnslum í landinu. Eitthvað af litlum og meðalstórum fiskvinnslum sem reknar eru í dag mun leggjast af. Þróunin mun halda áfram. Sjávarútvegurinn verður ekki sá byggðafestugrunnur sem menn hafa horft til. Við því verður auðvitað að bregðast. Menn verða að horfa til þess með hvaða hætti við ætlum í áherslum okkar til framtíðar að svara þessum krefjandi spurningum. Við munum ekki gera það án þess að skapa önnur tækifæri um landið samhliða aukningu í ferðaþjónustu. Þá sköpum við önnur grunnatvinnutækifæri, aðrar áherslur í byggðafestu.

Við getum tekið dæmi um slík atriði. Á Vestfjörðum stefnir fiskeldi og laxeldi í að verða grunnur að byggðafestu og uppbyggingu. Við berum öll von til þess að þetta verði nokkurs konar stóriðja Vestfjarða. Við horfum til þess að á Bakka við Húsavík er kominn grunnur að orkutengdum iðnaði. Orkutengdur iðnaður hefur reynst vera mikil kjölfesta þar sem hann er til staðar. Hann skapar vel launuð og traust störf til lengri tíma. Við höfum yfir hálfrar aldar reynslu af orkufrekum iðnaði, mjög góða reynslu í þessu tilliti, góða framlegð, vel launuð störf og litla starfsmannaveltu. Mikil byggðafesta getur skapast í kringum þann iðnað.

Við hljótum að þurfa að horfa til þess í framtíðinni og vera tilbúin til þess að áherslurnar okkar liggi þarna, að við horfum til landsbyggðarinnar fyrst og fremst þegar við greiðum leið fyrir aukinni nýfjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Til þess þurfum við auðvitað að fara í miklar innviðaframkvæmdir. Við þurfum að fara í dreifikerfi raforku og við þurfum að framleiða meiri raforku. Við þurfum að vera tilbúin til þess að samfélagið sem slíkt leggi eitthvað meira af mörkum til þess að laða fyrirtæki að og hvetja til þess að þau verði sem víðast í hinum dreifðu byggðum. Þannig sköpum við raunverulega byggðafestu við hlið annarra atvinnugreina sem þar eru.

Í landbúnaði, sem ákveðin byggðafesta hefur verið í kringum, mun þróunin fyrirsjáanlega verða með sama hætti. Við munum sjá búum fækka á Íslandi og við munum sjá þau stækka. Það er eðlileg þróun og óumflýjanleg ef við ætlum að efla samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Það mun því draga úr þeirri byggðafestu sem landbúnaðurinn hefur verið á undanförnum árum og áratugum.

Þegar þetta er tekið í samhengi við fjárlögin og það hvernig minnihlutaflokkarnir á þingi hafa talað núna fyrir því hvernig eigi að fjármagna frekari útgjöld á vegum ríkisins þá hlýtur maður að velta fyrir sér hversu alvarlega er hægt að taka slíkan málflutning. Núverandi ríkisstjórn er gagnrýnd fyrir að hafa fellt niður ákveðna skatta eins og auðlegðarskatt og orkuskatt. Það er talað um að veiðigjöld hafi verið lækkuð og að taka megi meira fjármagn þaðan, allt tengt atvinnulífinu og einstaklingum. Aðrar skattalækkanir eru jafnvel gagnrýndar einnig.

Hversu mikið mark er hægt að taka á þessum málflutningi, virðulegi forseti? Töluðu þessir flokkar með þessum hætti fyrir kosningar til dæmis þegar auðlegðarskatturinn var til umræðu eða orkuskatturinn? Erum við ekki einmitt að fylgja þeim tímamörkum sem þessir þáverandi ríkisstjórnarflokkar settu í þessum efnum? Þetta voru tímabundnir skattar. Það er ekki mikill trúverðugleiki að koma síðan núna og segja: Þetta er með allt öðrum hætti og við hefðum að sjálfsögðu framlengt þetta.

Það er svo sem ekki á vísan að róa í málflutningi þessara flokka í gegnum tíðina, virðulegi forseti, í þessum efnum. Það má segja að hentistefnan ráði svolítið för og á hverjum tíma sé vindhaninn settur upp og séð hvaðan blási og stefnan svolítið tekin eftir því. Villandi málflutningur er líka einkenni þess málflutnings sem fer fram af þeirra hálfu. Í því sambandi getum við til dæmis rætt aðeins veiðigjöldin sem talað hefur verið um af nokkrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar að hafi lækkað mikið og nefndir ákveðnir milljarðar í þeim efnum. Hv. þm. Björn Valur Gíslason fór hér mikinn. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi að veiðigjöldin hefðu verið um 13 milljarðar. Björn Valur var á svipuðum slóðum og sagði að nú hefðu þau lækkað um 3–4 milljarða á ári.

Ef við rýnum aðeins í tölurnar sem við fáum frá Fiskistofu kemur í ljós að 2012 voru innheimt veiðigjöld 9,8 milljarðar, 2013, árið sem þessi ríkisstjórn tók við, voru þau 9,8 milljarðar, árið eftir, 2014, voru þau tæpir 8,2 milljarðar og áætlunin fyrir þetta ár var 8,7 milljarðar. Þetta er bitamunur en ekki fjár, virðulegur forseti, þegar rýnt er í staðreyndir máls.

Menn gera sig hér breiða og saka núverandi stjórnarflokka um að hafa lækkað veiðigjöld mikið. Þá er gjarnan sagt: Við ætluðum að hækka þau miklu meira, það stóð til að hækka þau miklu meira. En í þau fjögur ár sem þáverandi stjórnarliðar fjölluðu um þetta mikilvæga mál tókst ekki betur til en raun ber vitni. Menn töldu sig geta leyst þetta mál á tiltölulega skömmum tíma og komið með nýtt fiskveiðistjórnarkerfi með lausnum þar sem litlum og meðalstórum útgerðum yrði ekki íþyngt, fjölbreytileikanum yrði haldið til haga í íslenskum sjávarútvegi en veiðigjöld aukin upp í jafnvel 20 milljarða plús. Þetta töldu menn sig geta gert, en það gerðist ekkert. Meira að segja hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, sagði nokkrum vikum áður en hann tók við sem sjávarútvegsráðherra að það mundi hann taka hann örfáar vikur að kippa þessu í liðinn og klára málin eftir að hann kæmi í sjávarútvegsráðuneytið. Hann kláraði þau ekki á þeim tæpu tveimur árum sem hann var í þeirri stöðu.

Ég held að mjög mikilvægt sé í þessu máli eins og í öðrum, virðulegur forseti, að við höldum okkur við staðreyndir máls. Það hefur verið nefnt hér í umræðunni, til að halda því til haga, að nú geti menn aukið álögur á íslenskan sjávarútveg af því olíukostnaður útgerðanna hafi lækkað svo mikið. Það var fullyrt hér af hv. þm. Árna Páli Árnasyni í umræðum um þetta fyrir nokkrum dögum að sparnaður útgerðanna væri um 10 milljarðar á ári vegna lækkaðs olíuverðs — 10 milljarðar á ári var fullyrt. Það hefur ekki verið mikil stúdía eða vinna á bak það frekar en annað sem kemur frá þessum flokkum. Þetta eru ekki djúp rök vegna þess að ef að rýnt er í málið kemur í ljós að lækkun á þeim tíma sem vitnað var til er um 18%, þ.e. miðað við 17 milljarða sem heildarkostnaðurinn var samkvæmt Hagstofu Íslands árið 2013 er lækkunin um 3,1 milljarður en ekki 10 milljarðar eins og talað var um. Látið var í það skína að við mættum bara hækka veiðigjöldin um 10 milljarða núna, útgerðin hefði borð fyrir báru. Það er verið að segja fólki þetta og þinginu en svo þegar rýnt er í tölurnar þá er lækkunin um 3,1 milljarður af 17. Svo geta menn velt fyrir sér hvort við eigum að ákvarða veiðigjöld út frá olíuverði á hverjum tíma.

Ég held að það sé mikilvægt, virðulegi forseti, að þessar staðreyndir séu taldar upp þegar að við förum yfir þetta mál til að hnykkja á því hversu mikið er að marka þann málflutning sem hér fer fram. Einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar og fleiri úr minnihlutaflokkunum töluðu um að fjármálastjórn vinstri flokkanna á síðasta kjörtímabili væri grunnurinn að því sem við værum að uppskera í dag. Þá skulum við rýna aðeins í baksýnisspegilinn og rifja upp hver staðan væri ef völdin hefðu ekki verið tekin af hæstv. ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Við skulum aðeins rýna í það hver staðan væri hérna ef Svavars-samningurinn svokallaði hefði náð fram að ganga, sem forustumenn ríkisstjórnarinnar lögðu fram í byrjun sumars 2009 og vildu endilega að færu í gegn á því þingi og nutu til þess stuðnings allra þingmanna Samfylkingarinnar og marga þingmanna Vinstri grænna. Það átti nánast að keyra málið í gegn í skjóli nætur. Það er ástæða til að rifja þetta upp núna vegna þess að á þessum tímamótum þyrftum við að taka tillit til fyrstu afborgana af þeim samningi við gerð fjárlaga. (Gripið fram í: Af hverju?) — Af Svavars-samningnum svokallaða um Icesave. Á næsta ári áttu fyrstu greiðslurnar að koma til. Hver væri nú staða okkar ef við værum að vinna hér við fjárlagagerð með það verkefni fyrir framan okkur? Þá rýnum við í þá pappíra sem komu frá ríkisstjórninni á þeim tíma, pappíra sem komu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðneytisins. Það er náttúrulega ástæða til að rifja það upp að 3. júní, að ég held, spurði núverandi hæstv. forsætisráðherra þáverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, hvort það stæði til að fara að skrifa undir samning á næstu dögum og hæstv. fjármálaráðherra taldi að svo væri ekki, þetta yrði allt rætt mikið betur, það væru könnunarviðræður í gangi, eins og það var orðað, en þetta yrði allt rætt við þingið áður en lengra yrði haldið. Þann 5. júní var skrifað undir samninginn af hálfu ríkisstjórnarinnar, tveimur dögum seinna. Fyrstu afborganirnar samkvæmt þeim samningi áttu sem sagt að vera á næsta ári. Það er nauðsynlegt að rifja það upp hver væri staða okkar við fjárlagagerðina núna ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra þess tíma, Jóhanna Sigurðardóttir, hefðu komið sínum málum í gegn. Það hefði þýtt að við værum að horfast í augu við að þurfa að greiða 36 milljarða á næsta ári, 25 milljarða í afborganir og 11 milljarða í vexti. Síðan kæmu sex ár þar sem við borguðum sem næmi að jafnaði byggingu eins Landspítala á ári. (Gripið fram í.) — Fyrrverandi fjármálaráðherra segir að þetta sé fjarstæða, en þetta er nú bara tekið upp úr gögnum úr hans eigin frumvarpi (Gripið fram í.) sem hann lagði fram á sínum tíma. Þetta var mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Afborganir 2017 hefðu verið 69,3 milljarðar með vöxtum, 2018 66,5 milljarðar, 2019 63,8 milljarðar, 2020 61 milljarður, 2021 58,3 milljarðar og þessu lyki 2024 með 26,4 milljarða kr. greiðslu. Þrátt fyrir að reynt hefði verið að leggja mat á hugsanleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs á komandi árum var óvissan í þessum samningi veruleg. Þetta var mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir miðað við þær forsendur sem að framan eru raktar að greiðslur úr ríkissjóði gætu orðið á bilinu 60–70 milljarðar kr. árlega á árabilinu 2017 til 2023, en helmingur þeirrar upphæðar árin 2016 og 2024.“

Þetta stendur í þessu frumvarpi. Það er ástæða til að rifja það upp við gerð fjárlaga nú hver ummæli manna voru á þessum tíma.

Ég ætla að vitna þar í Svavar Gestsson sem sagði að þetta væri góð niðurstaða og við kæmum „hagkerfinu í skjól í sjö ár í miðri kreppunni“, við þörfnuðumst þess. Svo gætum við safnað kröftum. Ef við fengjum hagstæðari lán einhvers staðar gætum við borgað þetta upp og það væri frábært.

Hvað sagði hæstv. þáverandi fjármálaráðherra í viðtali við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, fréttamann á vefsjónvarpi Morgunblaðsins? Þetta væri besta mögulega niðurstaða sem Íslendingar gætu vænst í málinu.

Kórinn hélt áfram, forsöngvarinn, Svavar Gestsson, sagði að það mætti auðvitað alltaf deila um það hvort það sem Bretar gerðu til að lenda þessu væri nóg, hvort það hefði verið hægt að komast lengra. Hann sagði að hefði verið það mat sem þeir tóku, þá sérstaklega hann og Indriði, en það væri veruleikinn að þeir værum þarna á endapunkti.

Viðskiptaráðherrann sem sóttur var í háskólasamfélagið á þessum tíma og fær að kenna enn í háskólasamfélaginu óáreittur … (SJS: Forseti, er eðlilegt að tala svona um menn úti í þjóðfélaginu?) Hann var viðskiptaráðherra á þessum árum. (Gripið fram í.) Ég er að vitna í ummæli hans sem viðskiptaráðherra. (Gripið fram í: Við hverju bjóstu?) — Ég er bara að vitna hér í það sem var skrifað og sagt á þessum árum. (SJS: Nei, …) Ég er ekki að gera … (SJS: … í háskólanum.) — Já, ég hef miklar efasemdir um að menn sem höfðu slíkt mat á þessum tíma hafi eitthvert erindi að kenna í háskóla. Það er nú bara þannig, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) að ég tel að háskólasamfélagið þurfi að líta dálítið í eigin barm (Gripið fram í.) þegar kemur að því hvernig að málum var staðið á þessum tíma.

(Forseti (EKG): Forseti biður menn að gæta orða sinna.)

Ég ætla að halda áfram að vitna í þessi ummæli. Það er ekki nema von, virðulegur forseti, að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra sé að fara algerlega á límingunum yfir því sem ég er að lesa vegna þess að sannleikanum verður auðvitað hver sárreiðastur þegar hann er rifjaður upp. (SJS: Ég er að tala um róg þinn um menn utan þings sem ekki geta varið sig hér og … þinghelgi.) — Það er ekki rógur, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að vitna í orð manna. (SJS: Þú ert ekki að því.)— Ég er víst að því og ég ætla að halda því áfram þér til skemmtunar. Gylfi Magnússon sagði þann 26. júní 2009 í viðtali á Stöð 2 að hann gæti ekki hugsað þá hugsun til enda ef samningurinn yrði felldur; við værum eiginlega búin að einangra okkur frá umheiminum og komin aftur á einhverskonar Kúbu-stig. Við værum Kúba norðursins.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði þann 29. júní 2009 á borgarafundi í Iðnó að samkomulag væri skásti kosturinn í stöðunni og að hann teldi að öll mál færu meira og minna í klessu ef þetta strandaði.

Svo ég vitni nú í annan sem menn hafa viljað gera að blóraböggli í öllu málinu, núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Davíð Oddsson. Hann sagði í viðtali að ummæli Jóhönnu og Steingríms um að Íslendingar væru skuldbundnir Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu hefðu stórskaðað málstað landsmanna. Um leið kvað hann upp úr um að Bretar og Hollendingar ættu að sækja að Íslendingum með því að fara dómstólaleiðina og sagði: „Við viljum borga skuldir okkar, en við viljum fá úr því skorið að við séum bundin að lögum að borga.“

Ég held að það sé ágætt að rifja þetta upp nú, virðulegur forseti, vegna þess að þessi tímamót væru komin í fangið á okkur við fjárlagagerð fyrir næsta ár ef þeir flokkar sem gagnrýna mest núverandi stjórnarflokka fyrir slælega fjármálastjórn og fyrir halda illa á málefnum ríkisins hefðu náð sínu fram á sínum tíma. Menn hljóta að spyrja sig hvort slíku fólki sé treystandi til að halda utan um ríkisfjármálin til framtíðar.

Við getum sett þetta allt í samhengi við það hver staða okkar væri þá ef við ætluðum að bæta kjör eldri borgara og öryrkja, lækka gjöld á fjölskyldurnar í landinu, lækka skatta, fella niður vörugjöld, fella niður tolla, hjálpa fólki að lækka húsnæðislán sín, efla atvinnulífið, auka fjárfestingu eða fara í byggingar á nýjum spítala. Menn geta sett það í samhengi við umræðuna sem við stöndum frammi fyrir í dag hver staða okkar væri. Það er eðlilegt og rétt, virðulegur forseti, að við gerum það á þessum tímamótum. Það er mikilvægt að sú umræða verði hluti af umræðunni þegar við ræðum stöðu okkar í dag því að núverandi stjórnarflokkar höfnuðu þessari leið. Það var fyrir tilstilli þeirra og ekki má gleyma hlutverki ákveðinna þingmanna þáverandi stjórnarflokka sem spiluðu auðvitað lykilhlutverk í því á þeim tíma að málið fór þannig í gegnum þingið að settir voru fyrirvarar í samninginn sem viðsemjendur okkar, Bretar og Hollendingar, gátu ekki sætt sig við. Þetta voru þingmenn eins og Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir, Ögmundur Jónasson og fleiri má nefna, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Ef það væri ekki fyrir þetta fólk og stjórnarandstöðu þess tíma væri ómögulegt að segja hvar við stæðum í dag, ómögulegt að segja hvort þær aðstæður hefðu skapast að forseti Íslands hefði gripið inn í þetta mál á sínum tíma, ef ekki hefði verið fyrir þessa baráttu og svo margt annað sem á eftir kom. Þegar málið var til að mynda til umræðu hér á milli jóla og nýárs var atkvæðagreiðsla daginn fyrir gamlársdag. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins óskuðum eftir því að henni yrði sjónvarpað. Þá var hafin undirskriftasöfnun um áskorun til forsetans um að staðfesta ekki lögin og sú undirskriftasöfnun tók ekki flugið fyrr en við þessa beinu útsendingu í sjónvarpinu daginn fyrir gamlársdag. Hverjum hefði dottið í hug að þjóðin sæti límd fyrir framan sjónvarpið daginn fyrir gamlársdag til þess að fylgjast með atkvæðagreiðslu á Alþingi? Svo sögulegt var þetta. Þá tók undirskriftasöfnunin kipp, undirskriftasöfnunin sem gaf forsetanum ákveðna átyllu að byggja ákvörðun sína á.

Mér finnst að mörgu leyti, virðulegur forseti, yfirboð og ósanngirni í málflutningnum hér varla boðlegt.

Ef áfram er rýnt í staðreyndir máls blasir það við hverjum sem vill skoða það hverjar áherslur þessarar ríkisstjórnar hafa verið í velferðarmálum. Getum við gert betur? Já, ég held að það séu að skapast aðstæður til þess. Viljum við gera betur? Já, alveg örugglega. Erum við á þeirri vegferð? Enginn getur bent á annað. Einhverjir vilja að við stígum skrefin stærri og hraðar en við erum á þessari vegferð. Er verið að vinna að því á vettvangi ríkisstjórnarinnar núna að við getum ráðstafað því sem við höfum til umráða í velferðarmálum betur til þeirra sem eru mest þurfandi? Já, sú vinna er í gangi; hún er komin nokkuð langt, með þátttöku allra flokka. Erum við að reyna að ná þannig víðtækari sátt og eflingu velferðarkerfis til framtíðar? Já, við erum á þeirri vegferð. Bætur til eldri borgara og öryrkja hafa aldrei hækkað eins mikið. Það er búið að afnema skerðingar. Það er búið að taka í raun verk síðustu ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili og snúa þeim við. Það er búið að fara yfir þetta hérna. Ég þarf, virðulegur forseti, svo sem ekki að eyða miklum tíma í það. Það er búið að taka fram að lífeyrissjóðstekjur skerða ekki grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega, það er búið að hækka frítekjumörk. Það kemur fram að raunhækkun bóta er um 17,1% uppsöfnuð á þessu tímabili á meðan verðlag hefur hækkað um 7,1%. Það er verið að fara að lögum í landinu. Stjórnarandstaðan hefur ekki svarað því hvort hún vill breyta þeim lögum með tillögum sínum núna. Það er verið að fara að lögum um það hvernig við hækkum bætur. Það væri eðlilegast að menn legðu fram lagabreytingar vegna þess að það er alveg ljóst að bætur sem við erum að deila út til þeirra sem mest eru þurfi í samfélaginu geta aldrei verið tengdar við launahækkanir. Menn geta gagnrýnt samningana og kjaradóm og kjararáð eða hvað þetta heitir allt saman en þetta getur aldrei verið tengt beint við kjarasamninga. Við hvaða kjarasamninga ættum við að binda bæturnar? Við hvaða dagsetningar? Við læknana eða einhverja aðra hópa? Þetta er auðvitað bara populískt yfirborð og lýsir í raun mikilli málefnaþurrð núverandi minnihlutaflokka.

Þegar kemur síðan að umræðu hér, svo að ég geti þess nú aðeins í lokið, um fundartíma og slíkt þá er fyrirkomulagið algjörlega ómögulegt. Við sjáum það öll en við höfum ekki borið gæfu til að taka á því saman. Það er algjörlega ómögulegt fyrirkomulag sem þingsköpin bjóða okkur upp á, en við erum ekki fólk til að breyta því. Við höfum ekki tekið á því, sest niður sameiginlega og tekið á því heldur höldum við áfram í einhverjum hanaslag um það hvað við eigum að ræða þetta lengi og hvað við eigum að vera lengi fram á nótt o.s.frv. Það er allt í lagi að vera hér fram á kvöld og nætur einhverja daga ef á þarf að halda en boltinn er beggja vegna borðs, líka hjá stjórnarandstöðunni. Hvað viljiði langan tíma? Spurt var að því úr ræðustól Alþingis í gærkvöldi. Hvað þurfiði langan tíma? Hvað viljiði fá langan tíma? Þann tíma sem við þurfum, var svarið. Er það málefnalegt svar? Hvert er þá svar þeirra sem eru að skipuleggja þingstörfin við því? Þeir verða þá að nota allan þann tíma sem þeir mögulega geta búið til. Þeir hafa ekkert annað svar þannig að ábyrgðin liggur ekkert síður hjá minni hlutanum á þingi. Segiði okkur hvort þið þurfið tvo daga eða þrjá daga og hvernig þið viljið haga umræðunum innan þess tíma! Þá get ég ekki séð að þetta verði neitt vandamál. Það var minnt á það hér af hæstv. forseta áðan hvernig þetta var á þinginu áður en vitleysisrúllettan fór af stað fyrir örfáum árum — kannski í kringum breytingu á þingsköpum en hrunið hefur örugglega sett sitt mark á þetta — þegar 2. umr. um fjárlög tók 12–15 tíma. Sennilega hefur gagnkvæm virðing manna verið meiri, virðulegur forseti, en hún er í dag.