145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég hallast nú samt að því að hv. þingmaður hafi ekki hlustað mikið á fyrri hluta ræðu minnar eða kannski stærri hluta ræðu minnar sem var um þá þætti við fjárlagagerðina sem snúa að því hvernig við eigum að fara í að auka tekjur okkar, hvernig við getum stækkað kökuna sem verður til skiptanna, hvernig ég tengdi þetta byggðaþróun og byggðafestumálum, hvaða fjárlagagerðin hefði með það að gera. Ég nálgast fjármálaumræðuna á þeim nótum. Það var rétt í seinni hluta ræðu minnar sem ég kom inn á Icesave-málið að gefnu tilefni. Ég kom inn á þá skattlagningu sem við höfum verið gagnrýnd fyrir að leggja af eða verið sökuð um að lækka og miðað við fyrri skattlagningu, eins og í veiðigjöldum. Ég fór yfir rökin í því og hvernig ég sé fyrir mér að við þurfum að þróa atvinnulíf okkar og verðmætasköpun og samkeppnishæfi atvinnulífsins til að geta stækkað kökuna.

Eru 10 milljarðar nægjanlegur afgangur af fjárlögum? Sú stefna fjármálaráðherra að fara strax í hallalaus fjárlög er okkur mikilvægust í öllu þessu samhengi og hefur skapað grunninn að stöðugleika. Það stefndi í milljarða halla á fjárlögum strax þegar hann tók við en þeirri þróun var snúið við fyrir áramót. Ég tel að við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag sé rétt hjá okkur að vera ekki með meiri afgang þótt það væri auðvitað óskandi að við gætum lagt meira til hliðar og lækkað skuldir ríkissjóðs, það væri mikið markmið. Skuldir ríkissjóðs fara þó mjög lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu af því að framleiðslan er að aukast, verðmætasköpunin er að aukast í samfélaginu og betur má ef duga skal.