145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er nefnilega svolítið snúið, ég er sammála því. Það sem við þurfum kannski að ákveða er að einhver grunnstarfsemi þarf að vera til staðar. Síðan ofan á þá grunnstarfsemi, og þar inni eru frumkvæðisathuganir og eðlilegar rannsóknir og eftirfylgni með markaðnum, hlýtur að koma eitthvert annað lag sem er sveiflukenndara. Ég held að við séum oft ekki einu sinni að ná að fjármagna þá grunnstarfsemi. Þar er kannski fyrsta verkefnið, að ná að klára það þannig að menn geti farið í athuganir, frumkvæðisathuganir, í þeim mæli sem þarf á svona markaði eins og okkar.

Ég er orðin ofboðslega leið á því að búa í landi þar sem við erum alltaf að búa til einhverja aðstöðu fyrir einhverja litla hópa til að hagnast alveg gríðarlega á. Og af því að við erum með skekkjur og við erum ekki með frjálst opið alþjóðlegt viðskiptalíf á Íslandi þá verða svona skekkjur til. Ég vil að við höfum öll jöfn tækifæri til þess að spretta úr spori og grípa tækifæri í viðskiptalífinu á einhverjum eðlilegum forsendum. (Forseti hringir.) Við verðum því að horfa til þessa, en ekki tala þetta niður eins og mér finnst menn gera oft.